Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:49:21 (2248)

2002-12-05 23:49:21# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:49]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til þess að útskýra fyrra atriðið sem þingmaðurinn nefndi. Ég ætla ekki að tala við hann í kvöld meira um mismunandi skoðanir okkar á einkavæðingu. Ég ætla að fara yfir þetta með bókhaldið vegna þess að mér finnst illt að þurfa að sitja undir slíkum ásökunum hér. Það er nóg að takast á um raunverulegan ágreining þó að menn deili ekki um þetta.

Ég fór sjálfur yfir það hér áðan mjög nákvæmlega að lánsfjárafgangur þessa árs mun lækka úr u.þ.b. 38 milljörðum samkvæmt fjárlögum ársins niður í u.þ.b. 3--4 milljarða vegna þess að salan á Landssímanum varð ekki að veruleika og vegna þess að greiðslurnar vegna sölu bankanna koma ekki fyrr en á næsta ári. Greiðslurnar eru að sjálfsögðu á greiðslugrunni. En það má ekki gleyma því að fjárlög og fjáraukalög eru gerð upp á rekstrargrunni og þá fer það eftir því hvenær skuldbindingin verður til hvenær viðkomandi færsla er færð. Eins og við vitum eru lífeyrisgreiðslur ríkissjóðs færðar á hverju einasta ári, stórkostlegir fjármunir vegna lífeyrisskuldbindinga sem verða til á því ári þó að greiðslurnar falli ekki til fyrr en löngu seinna. En við færum þetta sem greiðslur til þess að vera búin að gera ráð fyrir því, vita af því. Sama er með skatttekjur sem eru lagðar á. Þær eru bókfærðar við álagningu þó að maður viti ekkert um það þá hvenær þær koma til greiðslu eða hvort þær innheimtist allar. Þetta er auðvitað alþekktur munur á kerfunum. Í þessu dæmi vaknaði sú spurning hvernig rétt væri að færa þetta þannig að það væri í sem bestu samræmi við lögin um fjárreiður ríkisins. Niðurstaðan í því máli er hér, hluti af því kemur í fjáraukalögum, hluti af því kemur í fjárlögum, en allar greiðslurnar koma inn í lánsfjárjöfnuðinn á næsta ári og sjóðstreymi þess árs, ekki núna á þessu ári.