Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:37:17 (2256)

2002-12-06 10:37:17# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það er ekkert nýtt að það þurfi að halda mönnum að verki í efh.- og viðskn. Ég vil vekja athygli á því að nefndin er að fjalla um mörg mál og á dagskrá fundarins í dag eru líklega ein tíu mál sem hafa verið afgreidd úr nefndinni á undanförnum dögum. Það er heldur ekkert nýtt að sum af þeim málum sem til nefndarinnar koma eru ágreiningsmál enda eru mörg þeirra stórmál og ekkert nýtt að þau séu þá afgreidd út í ágreiningi þar sem ýmsir telja sig ekki hafa fengið nægar upplýsingar.

Ég vil þó fullyrða að í þessu máli hefur allra þeirra upplýsinga sem óskað hefur verið eftir ýmist verið aflað eða gerðar ráðstafanir til þess að hægt verði að afla þeirra. Það er líka oft þannig að efh.- og viðskn. þarf að vinna mál undir mikilli tímapressu og menn þurfa að innbyrða mikið magn af upplýsingum á skömmum tíma.

Varðandi þau tilteknu mál sem þarna eiga í hlut í tekjuskatti og eignarskatti þá eru þau ekkert flókin í sjálfu sér. Varðandi þá brtt. sem var verið að ræða áðan um breyttar fyrningarreglur þá er í sjálfu sér verið að tala um tvö jafngild fyrningarkerfi. Það er einungis spurning um hvort það hefur einhver tímabundin áhrif á tekjur ríkissjóðs til eða frá í tvö, þrjú ár. En eftir að þeim árum er lokið þá eru tekjurnar jafngildar þannig. Því er ekki eins og verið sé að taka þarna ákvörðun um einhver stórmál til langrar framtíðar.

Varðandi önnur atriði í skattafrv. þá eru þar vel þekkt ágreiningsmál svo sem eins og um hátekjuskatt og slíka þætti sem ekki þarf í sjálfu sér neitt nýtt að koma fram um.