Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:42:51 (2259)

2002-12-06 10:42:51# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það eina sem er nýtt í þessu máli er að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur áhyggjur af því hvort það sé ágreiningur innan stjórnarliðsins um málið. (ÖS: Ert þú að fara utan?) Ég hélt að það væri ekki sérstakt áhyggjuefni hjá henni.

Varðandi frammíkall hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar skal ég alveg upplýsa það að við tveir ásamt fleiri nefndarmönnum úr efh.- og viðskn. erum í þingmannanefnd EFTA og samkvæmt þingskyldum okkar eigum við að sækja þar fundi sem búið er að setja á í næstu viku. Það skiptir svo sem ekki höfuðmáli. Aðalmálið í þessu er að þær upplýsingar sem hv. nefndarmenn óska eftir geta legið fyrir áður en málið verður tekið fyrir. Þótt málið sé afgreitt í dag þá skiptir það ekki máli að því leyti til að hv. nefndarmenn geta algjörlega fengið þessar upplýsingar áður en málið kemur hingað til umræðu og áður en þeir þurfa að leggja fram nefndarálit sín þannig að það stoppar þá í sjálfu sér ekki neitt. Hvað mig sjálfan varðar þá hef ég fengið allar þær upplýsingar sem ég þarf um þetta mál. Þetta mál er afar einfalt að því leyti til að þetta hefur þegar til lengri tíma er litið engin áhrif á tekjur ríkissjóðs til eða frá varðandi tekjuskatt fyrirtækja. Hugsanlega gætu 100 eða 200 millj. til eða frá haft einhver áhrif á tekjur ríkissjóðs í eitt eða tvö ár. En til lengri tíma litið hefur það engin áhrif. Málið er því ekki eins flókið og hv. þingmenn vilja vera láta. Síðan hefur það alltaf verið svo í störfum efh.- og viðskn. að ef nefndarmenn óska eftir því að taka upp mál milli 2. og 3. umr. til að koma að einhverjum upplýsingum eða fá þau rædd þá hefur það alltaf verið velkomið af minni hálfu.