Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 11:22:35 (2282)

2002-12-06 11:22:35# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Enn skal látið á það reyna hvort vilji finnist hér á Alþingi til þess að rétta lítillega hraksmánarlegan hlut íslenska ríkisins hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu, mannúðarmála og neyðaraðstoðar. Nú liggur fyrir að ef engar breytingar verða á gerðar mun þetta hlutfall fara lækkandi á næsta ári á nýjan leik. Er það heldur dapurlegt og fjarri þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn boðaði fyrir 3--4 árum um að nú stæði til að gera bragarbót og láta þetta hlutfall fara hækkandi í áföngum á næstu árum. Það hefur ekki gengið eftir, þvert á móti lækkar framlag okkar til þróunarsamvinnu, mannúðarmála og neyðaraðstoðar sem hlutfall af landsframleiðslu í einu mesta góðæri Íslandssögunnar. Það er dapurlegt þannig að við leggjum til að þetta verði hækkað um 280 millj. kr. --- en ég sé að vísu á jólaljósunum, bæði þeim rauðu og líka þeim gulu, að ekki er líklegt að þetta nái fram að ganga, svo dapurlegt sem það nú er.