Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 11:36:49 (2290)

2002-12-06 11:36:49# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur haft 7 þús. kr. á mánuði af lífeyrisþegum með aftengingu lífeyrisgreiðslna við launavísitölu á árinu 1996. Hluta af því sem með þessum hætti var tekið úr vösum lífeyrisþega knúði Landssamband eldri borgara ríkisstjórnina til að skila aftur nú um áramótin. Ríkisstjórnin hefur ýtt út af borðinu óskum lífeyrisþega um að miða lífeyrisgreiðslur við launavísitölu. Þessi tillaga gengur út á það að hækkun lífeyrisgreiðslna og félagslegra bóta verði í samræmi við launavísitölu sem er krafa bæði Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara.