Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:03:37 (2301)

2002-12-06 12:03:37# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Vel hefur verið að verki staðið undanfarnar vikur hér í Alþingi við að afgreiða fjárlagafrv. Það verður meira að segja afgreitt í dag, degi áður en starfsáætlun gerði ráð fyrir. En það sem er aðalmálið er hins vegar hver niðurstaðan er. Hún er sú að þrátt fyrir meiri slaka í efnahagsmálum en menn sáu fyrir í haust er frv. afgreitt með mjög sómasamlegum afgangi hvort heldur litið er á niðurstöðutöluna með eignasölu eða án. Við erum með afgang þegar búið er að taka tillit til eignasölunnar upp á 11,5 milljarða en um það bil 1,5 án hennar. Þetta þýðir að við erum á næsta ári með stórfelldan lánsfjárafgang, við erum að greiða niður lán upp á um það bil 13,5 milljarða, styrkja stöðuna við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um 7,5 milljarða og bæta okkar eigin stöðu í Seðlabankanum upp á tæpa 3 milljarða. Það er sama hvað stjórnarandstaðan segir. Þetta er mjög frambærilegur og mjög ánægjulegur árangur. Ríkissjóður er á næstu árum vel undir það búinn að takast á við ný stórátök hvort sem það er í formi skattalækkana eða ýmissa brýnna verkefna á sviði framkvæmda eða rekstrar.