Fjárlög 2003

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:06:16 (2303)

2002-12-06 12:06:16# 128. lþ. 48.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það á að heita svo að þetta fjárlagafrv. sé afgreitt með 11,5 milljarða kr. afgangi en þegar sala eigna er dregin frá er sá afgangur nær allur gufaður upp og í besta falli hægt að segja að afkoma ríkissjóðs sé í járnum. Ef ekki kæmi til sérstök tekjuöflun nú í lokin hefði ríkissjóður verið gerður upp með halla að frádreginni eignasölu.

Pólitíkin í frv. birtist skýrust í skattstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hátekjufólki og gróðafyrirtækjum eru færðar sérstakar jólagjafir. Einstaklingar með yfir 340 þús. kr. á mánuði og hjón með 680 þús. kr., þessum hópum með tekjum þar fyrir ofan er færð 300 millj. kr. jólagjöf á sama tíma og láglaunafólk, öryrkjar og aldraðir bera skarðan hlut frá borði. Velferðarkerfið er svelt, einkanlega heilbrigðis- og menntakerfið.

Núverandi ríkisstjórn, herra forseti er ekki ríkisstjórn almennings í landinu. Þetta er ekki velferðarstjórn. Þetta er ríkisstjórn hátekjufólks og fjármagnseigenda og því fer betur að hér er nú komið að því að hún afgreiði sín síðustu fjárlög.