Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:39:39 (2310)

2002-12-06 12:39:39# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Öll teikn eru því miður á lofti um að hlutir séu enn eina ferðina að fara algjörlega úr böndunum á kjötmarkaði hér á landi. Offramleiðsla með tilheyrandi verðstríði og undirboðum veldur því að allt sem hægt er að kalla jafnvægi, ef yfirleitt er hægt að tala um slíkt, hefur raskast og þó að neytendur uni hag sínum vel, tímabundið, er gallinn sá af slíku ástandi, og það sýnir reynslan, að þeir fá með einum eða öðrum hætti beint eða óbeint reikninginn í hausinn að lokum í formi hærra vöruverðs síðar, í gegnum afskriftir í bankakerfinu eða yfir skattseðilinn sinn ef ekki vill betur til.

Það sérkennilega við ástandið núna og sem er nokkuð nýtt í stöðunni er að herkostnaður þessarar offramleiðslu og undirboða er að verulegu leyti borinn beint af bankakerfinu í landinu, ekki aðeins í gegnum útlán, mjög rífleg útlán til nýrra fjárfestinga í greinum þar sem fyrir er offramleiðsla, heldur líka með beinni eignaraðild banka að framleiðslu- og vinnslufyrirtækjum. Sérstaklega er ástæða til að hafa þungar áhyggjur af enn versnandi stöðu sauðfjárbænda og reyndar nautakjötsframleiðenda einnig í þessu sambandi.

Það hefur lítið orðið vart við hæstv. landbrh. í þessu máli enn þá. E.t.v. er hæstv. ráðherra svo upptekinn af vinsældum sínum að hann má ekki vera að því að gera neitt. Ég leyfi mér að spyrja: Er ætlunin að láta þetta þróast algjörlega stjórnlaust hér á landi, t.d. stóraukna framleiðslu eða offramleiðslu í hreinum verksmiðjubúum? Danir verða tæpast sakaðir um að reka óhagkvæman landbúnað en þeir stjórna stærð búa í svína- og kjúklingarækt í gegnum skilmála um að menn þurfi að hafa land á móti til að afsetja áburðinn og annað í þeim dúr. (Landbrh.: Hvað eru búin stór þar?) Það er engum til góðs --- þau taka mið af því landi sem viðkomandi framleiðandi hefur til ráðstöfunar, herra forseti. Ég held að hæstv. landbrh. ætti heldur að reyna að nota ræðutíma sinn til að svara einhverju hér en að vera að trufla aðra með frammíköllum. (Landbrh.: Ég er að nýta tímann.) Lítið var á ræðu hans hér að græða fyrir utan spakmælin fornu sem hann hefur jafnan á reiðum höndum.