Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:44:16 (2312)

2002-12-06 12:44:16# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ef ódýrir kjúklingar eða svín eru á boðstólum er það gott mál. Ef aðrir kveinka sér er það ekki almannavaldsins að grípa þar inn í, ekkert frekar en á vídeó\-leigumarkaði. Grunnatriði í atvinnulífi okkar er og á að vera samkeppni á jafnréttisgrunni. Samkeppnin er alltaf til góðs og jafnréttið felst m.a. í því að ekki sé um óeðlilega fjármögnun að ræða. Ef svo er varðar það við önnur lög, samkeppnislög.

Varðandi útflutning á landbúnaðarafurðum finnur hann sér leið sjálfur. Ég bendi á að menn geta kynnt sér t.d. nýja meistararitgerð frá Háskóla Íslands, viðskipta- og hagfræðideild, þar sem vísindamaður komst að þeirri niðurstöðu að við eigum ýmsa möguleika í Frakklandi en ekki í Bandaríkjunum til að mynda. Hann sagði að þetta væru hlutir sem menn gætu betur kynnt sér. Hins vegar leiðir þessi umræða svolítið hugann að ógöngum landbúnaðarstefnunnar. Bændur eru fátækasta stétt landsins. Við erum með matarverð sem er með því hæsta í Evrópu, tugum prósenta hærra en í næstu löndum. Stuðningur við landbúnað hér á landi er mjög mikill, þ.e. 1,6% af landsframleiðslu, um 13 milljarðar, mun hærra en er innan OECD. Vægi landbúnaðar sem hlutfall af verðmætasköpuninni hefur minnkað síðustu ár.

Það sem er grátlegast í þessu, herra forseti, er að botnfrosið kerfi er ekki stokkað upp, og umbætur síðustu ára hafa alls ekki verið nægjanlegar.

Herra forseti. Fátæktin er fylgikona bænda, sérstaklega sauðfjárbænda, en ríkisstjórninni er sama. Hagsmunasamtökin eru fjármögnuð af skattpeningunum og þar ríkir sama stöðnunin og í ráðuneytinu. Ég skora á hæstv. ráðherra að brjótast út úr þessu gamla kerfi hagsmunagæslu Framsfl. og Sjálfstfl. og hugsa um hag neytenda og bænda því að þá verður hann sá alþýðuleiðtogi sem hann hefur alla burði til.