Ársreikningar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:38:38 (2319)

2002-12-06 13:38:38# 128. lþ. 48.4 fundur 427. mál: #A ársreikningar# (EES-reglur) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breyting á lögum um ársreikninga. Ég vil koma inn á sérstakt vandamál sem er að knýja dyra hér á Íslandi, sem er eignarhluti fyrirtækja hvert í öðru og eignarhluti fyrirtækja sem fer í hring, þ.e. félag A á í B, B á í C, C á í D og D á í A. Þetta er fyrirbæri sem er víst orðið nokkuð algengt í Japan og er orðið ákveðið helsi á atvinnulífið þar og þarf að bregðast við.

Við getum hugsað okkur tvö fyrirtæki sem eru með 10 milljóna hlutafé og þau auki hlutafé hvort um sig í um 90 milljónir og kaupi hvort í öðru á genginu einn. Þá gerist ekki neitt fjármálalega því þau borga hvort um sig 90 milljónir hvort til annars og það fer enginn peningur á milli. En það sem gerist er að stjórn A ræður B og stjórn B ræður A og hluthafarnir sem upphaflega áttu 20 milljónir í báðum félögunum samanlagt ráða engu, eða 10% í hvoru félagi.

Það sem gerist er að það myndast sjálfvirkt vald stjórnanna. Þetta ber að forðast. Að sjálfsögðu getur þetta einfalda dæmi verið miklu flóknara með því að menn eiga í dótturfyrirtækjunum og dótturfyrirtækin aftur í fyrirtækjunum og svo fara peningarnir í hring. En það sem þarf að gera, og ég skora á hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að leiða hugann að, er að skoða það hvernig hægt er að koma í veg fyrir það að fyrirtæki eigi þannig í sjálfum sér og fari með atkvæðismagn sem þau eiga í sjálfum sér, þannig að stjórnin fari að kjósa sjálfa sig.

Þetta dæmi sem ég nefndi áðan hefur líka þau áhrif að eigið fé beggja fyrirtækjanna sýnist vaxa um 90 milljónir þó það að sjálfsögðu vaxi ekki neitt. Og það er vegna þess að þau eiga hlut í eigin fé sjálfra sín í gegnum fyrirtæki sem þau eiga stóran hlut í. Þetta þarf líka að skoða í sambandi við ársreikninga, þ.e. að reyna að koma í veg fyrir að það myndist eign sem er í raun í félaginu sjálfu og er þar af leiðandi engin eign, ekki frekar en ef fyrirtæki á hlutabréf í sjálfu sér, sem er alls staðar kveðið á um að eigi ekki að mynda eign eða atkvæðismagn.

Ég held að þetta sé orðið dálítið brýnt. Það hafa núna á síðustu mánuðum komið upp dæmi. Ég nefni Meið hf. sem á í Kaupþingi og Kaupþing á í Meiði. Þau eignatengsl hafa myndast vegna þess hluta sem SPRON átti í Kaupþingi. Síðan nefni ég Haukþing sem á í Skeljungi og Skeljungur á í Haukþingi. Þetta var reyndar líka þekkt hér áður fyrr því Sjóvá átti í Eimskipi og Eimskip átti Sjóvá. Til eru mörg slík dæmi. En þetta fer vaxandi og það er tilhneiging í þessa átt til að verjast utanaðkomandi áhrifum. En þetta er mjög skaðleg þróun. Ég held að það sé rétt að fara að huga strax að því að koma í veg fyrir að þetta verði helsi á atvinnulífinu eins og það er orðið í Japan og mér er sagt að svo hafi líka verið í Bandaríkjunum í sambandi við Enron hneykslið eða hluta af því.