Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 13:58:45 (2326)

2002-12-06 13:58:45# 128. lþ. 48.6 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Ég vil ekki láta hjá líða að fagna því frv. sem hér er til umræðu. Ég tel að þetta sé eitt af því jákvæðasta sem hefur komið fram á þessu hausti og að bærileg sátt skuli vera milli stjórnvalda og fulltrúa frá sveitarfélögunum um þessa hluti skiptir afar miklu máli.

Mér finnst samt að þessu hefði þurft að fylgja eitthvað meira til að hvetja menn til dáða í sambandi við stækkun sveitarfélaganna, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr því sem hér er inni því það er greinilega jákvætt. Það er hins vegar ekki auðlesið út úr frv. hvað þetta skiptir fjárhagslega miklu máli fyrir sveitarfélögin og þess vegna sér maður ekki hvaða áhrif verða af þessu. Það er ýmislegt í frv. sem mér finnst vera til bóta eins og það að ríkið skuli yfirtaka 15% hlutdeildina í stofnkostnaði í sambandi við meiri háttar viðhald og tækjakaup í heilsugæslustöðvar, svæðissjúkrahúsin og deildasjúkrahúsin. Á móti er framlag skert um 100 milljónir í jöfnunarsjóðinn þannig að það er bara metið út og inn hvað þetta kostar.

En þetta hefur það í för með sér að frumkvæði sveitarfélaganna til framkvæmda varðandi þessar stofnanir minnkar örugglega. Við vitum að í gegnum tíðina hafa sveitarfélögin lagt peninga í framkvæmdir og oft átt inni verulegar fjárhæðir hjá ríkinu í sambandi við framkvæmdir á svona stofnunum og hafa notað þá aðferð til þess að knýja fram lagfæringar, breytingar og framkvæmdir við þær stofnanir. Menn verða því að nota aðrar leiðir til þess að ýta á sveitarfélögin um þarfar framkvæmdir af þessu tagi. Ég er ekki á móti þessari breytingu en ég bendi á að þetta getur orðið til þess að menn hafi ekki sama möguleika og frumkvæði og þeir hafa haft fram að þessu.

Það er auðvitað margt sem væri gaman að spjalla um í tengslum við þetta mál og við fáum auðvitað tækifæri til þess við 2. umr. Það stendur sérstaklega á þannig hjá mér að ég hef ekki möguleika á því að halda hér langa ræðu en ég vildi láta það koma fram að mér finnst það mjög jákvætt sem þó er í frv. og verulega til bóta hvað varðar möguleika til þess að hafa jákvæð áhrif á stækkun sveitarfélaganna.