Málefni aldraðra

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:06:03 (2328)

2002-12-06 14:06:03# 128. lþ. 48.8 fundur 412. mál: #A málefni aldraðra# (gjald í Framkvæmdasjóð) frv. 150/2002, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Í frv. er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað úr 4.826 kr. í 5.440 kr. eða um 614 kr.

Úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru m.a. veittir styrkir til byggingar öldrunarstofnana. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra stjórnar sjóðnum og gerir árlega tillögu til heilbr.- og trmrh. um úthlutun úr sjóðnum til verkefna. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þeir sem greiða gjaldið eru einstaklingar á aldrinum 16--69 ára. Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn er nemur 809.611 kr. eða lægri á tekjuárinu 2002. Jafnframt skulu skattstjórar fella gjaldið niður á þeim elli- og örorkulífeyrisþegum undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- eða hjúkrunarheimilum.

Gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra er með frv. hækkað um 12,73% og er gert ráð fyrir að það aukna fjármagn sem kemur í Framkvæmdasjóðinn vegna hækkunarinnar renni óskipt til uppbyggingar öldrunarstofnana en fari ekki til reksturs stofnananna. Er það í samræmi við tillögur starfshóps sem var skipaður af ríkisstjórninni vegna aðgerða stjórnvalda til að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra næstu tvö til þrjú árin.

Ég tel brýnt að þetta frv. hljóti afgreiðslu á haustþingi þannig að það fylgi fjárlagafrv. og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.