Almannatryggingar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:08:16 (2329)

2002-12-06 14:08:16# 128. lþ. 48.9 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er samið í heilbr.- og trmrn. í framhaldi af tillögum starfshóps sem skipaður var af ríkisstjórninni vegna aðgerða stjórnvalda til að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra næstu tvö til þrjú árin. Starfshópurinn var skipaður í lok september sl. og skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar 19. nóv. sl. Gerði starfshópurinn tillögur um hækkun á tekjutryggingu og tekjutryggingarauka frá Tryggingastofnun ríkisins umfram árlega hækkun þessara bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Jafnframt var gerð tillaga um að lækka skerðingarprósentu tekjutryggingaraukans úr 67% í 45%. Hækkun tekjutryggingar og tekjutryggingarauka kemur til framkvæmda með reglugerð heilbr.- og trmrh. sem hefur stoð í lögum um almannatryggingar. Frumvarpi þessu er ætlað að hrinda í framkvæmd breytingu á skerðingarhlutfalli tekjutryggingaraukans í 9. og 10. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar þannig að skerðingarhlutfallið verði 45%. Starfshópurinn gerði einnig ýmsar tillögur er lúta að heima- og stoðþjónustu við aldraða og að uppbyggingu og rekstri hjúkrunarheimila.

Tillögur starfshópsins um áherslur í málefnum aldraðra fylgja frumvarpi þessu til skýringar.

Frv. gerir ráð fyrir að hið breytta tekjutengingarhlutfall tekjutryggingaraukans taki gildi 1. janúar 2003. Gildir það jafnt um tekjutryggingarauka til aldraðra og öryrkja. Áætlaður kostnaður við frv. er 250 millj. kr. á næsta ári.

Herra forseti. Sú jákvæða þróun á sér nú stað að eldra fólk er oft og tíðum heilsuhraustara en áður var. Gildir það jafnt um líkamlegt og andlegt heilbrigði. Það er skiljanlegt að þetta sama fólk vilji nýta krafta sína sem lengst, sér og samfélaginu til hagsbóta. Á undanförnum missirum hefur allnokkur umræða átt sér stað um rétt þeirra sem eru komnir á hinn hefðbundna eftirlaunaaldur til að afla sér tekna og áhrif þess á bætur almannatrygginga sem þessi hópur nýtur. Tekjur fólks, hvort heldur vinnutekjur eða uppsöfnuð réttindi úr lífeyrissjóði, hafa haft þó nokkur áhrif til skerðingar bóta. Því hefur verið haldið fram að skerðingarákvæðin séu beinlínis vinnuletjandi og vinni gegn hagsmunum einstaklinganna og samfélagsins.

Það er eðli okkar Íslendinga að vilja sjá okkur farborða sjálf. Við lítum á okkar ágæta almannatryggingakerfi sem samfélagsnet sem eigi að grípa inn í þegar einstaklingurinn sjálfur er ekki fær um að afla sér tekna til framfærslu. Í þessu ljósi er lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingaraukans verði lækkað. Lækkunin kemur ekki aðeins eftirlaunaþegum til góða heldur ekki síður öryrkjum. Öryrkjum sem öðrum er mikilvægt að stunda vinnu ef það er mögulegt fyrir þá, afla tekna og auka möguleika sína til betri lífskjara. Lækkun á skerðingarhlutfalli mun styrkja öryrkja á vinnumarkaði, bæði efnalega og vonandi ekki síður persónulega.

Sú lækkun sem hér er mælt fyrir að verði á skerðingarhlutfalli tekjutryggingaraukans er mikil réttarbót fyrir bótaþega almannatrygginga. Hún kemur til móts við þau grundvallarsjónarmið að menn njóti vinnu sinnar í aukinni velferð. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.