Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:36:11 (2346)

2002-12-10 13:36:11# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er hluti af lýðræðinu að halda uppi gagnrýni og aðhaldi jafnvel þó að það sé óvægið á köflum. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarformaður Landsvirkjunar sé í sínum fulla rétti þegar hann gagnrýnir náttúruverndarsamtök. Það er allt í lagi. Þau geta vel staðið undir því. Ég hygg hins vegar að stjórnarformaður Landsvirkjunar sé kominn langt út fyrir öll eðlileg mörk þegar hann nafngreinir einstaklinga eins og þau þrjú sem hafa orðið skotspónn gagnrýni hans og vegur mjög grimmilega að þeim. Ég get ekki annað en fordæmt fortakslaust þau ummæli stjórnarformannsins. Ég tel að þau hafi orðið Landsvirkjun til vansa og ég tel að þau hafi verið mjög óheppileg fyrir framgang málsins.

Ég kem hingað, herra forseti, sem stjórnmálamaður sem styður Kárahnjúkavirkjun eindregið. Ég og minn flokkur erum þeirrar skoðunar að það eigi að ráðast í þá virkjun og það eigi að byggja álver við Reyðarfjörð. Ég er hins vegar ekki að biðja um það að náttúruverndarsamtök undanskilji mig einhverri gagnrýni. Ég stend hérna sem stjórnmálamaður sem hefur verið sérstakur skotspónn Náttúruverndarsamtaka Íslands sem hafa farið í herferð og beðið félagsmenn sína um að senda mér póstkort til þess að benda mér á að mig hafi borið af leið. Ég tel að samtökin séu í sínum fulla rétti til þess að gera það. Ég bið menn ekki um að hætta að gagnrýna mig. Ég tel að Landsvirkjun geti ekki reynt með þessum hætti að ómerkja gagnrýni náttúruverndarsinna. Þau eru í sínum fulla rétti.

Ég ítreka, herra forseti, að ég tel að ráðherra ætti að hlutast til um að stjórnarformaðurinn biðjist afsökunar á ummælum sínum og dragi þau til baka. En ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég er ekki í hópi þeirra sem heimta að menn segi af sér vegna þess að þeim verði á mistök af þessu tagi. Ég tel að honum hafi orðið á mistök en það er mannlegt.