Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:38:28 (2347)

2002-12-10 13:38:28# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stjórnarformaður Landsvirkjunar tjáir sig um málefni Landsvirkjunar í skjóli hæstv. iðnrh. Það er alveg ljóst og mér heyrðist hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan nánast taka undir orð stjórnarformannsins og það verð ég að segja að er afar hæpið af hæstv. ráðherra. Sannleikurinn er auðvitað sá að Landsvirkjun hefur í baráttunni sem staðið hefur núna árum saman um stórvirkjanir á hálendi Íslands haft yfirburðastöðu hvað varðar fjármagn í sinn áróður. Landsvirkjun rekur ríkisstyrktan áróður gegn náttúruverndarsinnum í þeim efnum. Og ég ætla að biðja hæstv. iðnrh. að rifja upp svar sem hún sjálf gaf mér á þingskjali sl. vor og reyndar aftur núna í haust um hvað það er búið að kosta þjóðina, þetta áróðursstrið Landsvirkjunar. Það eru ekki tugir milljóna eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um í ræðu sinni áðan. Það er farið að skipta hundruðum.

Sannleikurinn er sá að Landsvirkjun eyðir í beinan áróður vegna stóriðjuframkvæmda á hálendinu um 50--60 millj. á hverju einasta ári. Það fer að koma að því, herra forseti, að við spyrjum hæstv. iðnrh. hvort Landsvirkjun sé þar með farin að fara út fyrir hlutverk sitt og farin að láta almenna notendur raforku greiða niður stóriðjuæði Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar. Það er aðvitað algert lágmark að hæstv. iðnrh. biðji þennan stjórnarformann, sem situr í hennar skjóli og talar í hennar skjóli, að biðja fólk afsökunar, fólk sem hann hefur meitt og nítt niður opinberlega á þann hátt sem stjórnarformaðurinn hefur gert. Auðvitað er rétt að hæstv. iðnrh. hugleiði það að kannski þurfi stjórnarformaðurinn að víkja.