Framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 13:44:52 (2350)

2002-12-10 13:44:52# 128. lþ. 50.91 fundur 310#B framganga stjórnarformanns Landsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekki veit ég í hvaða heimi eða á hvaða öld framsóknarmenn lifa, a.m.k. ekki á þeirri tuttugustu og fyrstu ef þeir hafa ekki áttað sig á því að alþjóðleg umhverfisverndarsamtök, rétt eins og alþjóðleg mannréttindasamtök, láta sig viðfangsefni sín vítt og breitt um heiminn varða.

Í öðru lagi er það væntanlega rangt hjá hæstv. utanrrh. að búið sé að ákveða að byggja þessa virkjun. Eða hvað? Er ekkert að marka yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar og ráðamanna þar á bæ, að það eigi eftir að meta arðsemina þegar allir samningar liggja fyrir og þá fyrst verði ákvörðunin tekin? Er hæstv. utanrrh. e.t.v. að upplýsa hið sanna í málinu, að í Stjórnarráðinu sé búið að ákveða þetta hvað sem allri hagkvæmni muni líða?

Í þriðja lagi, herra forseti, er stjórnarformaður Landsvirkjunar stjórnarformaður Landsvirkjunar og talar sem slíkur í þessu máli, ekki sem einstaklingur úti í bæ. Hann er skipaður af ráðherra og hann starfar í umboði ráðherra þannig að ráðherra verður að gjöra svo vel, ef hún ætlar að vera í embættinu, að taka ábyrgð á þessum fulltrúa sínum.

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hæstv. iðnrh. beri blak af framsóknarmanninum Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni. Það eru vissulega vonbrigði en í ljósi þess að það var auðvitað hæstv. ráðherra sjálf sem reið á vaðið og gaf veiðileyfi á vísindamennina er ekki hægt að segja að það komi á óvart. Að sjálfsögðu eiga náttúruverndarsamtök að þola gagnrýni en að reyna að þagga niðri í þeim með þessum hætti, eins og þau hafi ekki rétt til að halda fram sínum skoðunum í hvaða stöðu sem málið er, er með hreinum ólíkindum í lýðræðissamfélagi á upplýstri öld. Undarlegast er þó að heyra Landsvirkjun, ríkisstjórnina, ráðuneytin og ráðherrana væla eins og þeir séu litli maðurinn í málinu, þeir séu Davíð, að náttúruverndarsamtök og fólk með berar hendurnar séu Golíat, og að allur sá aflsmunur sem felst í ríkisvaldinu, meiri hlutanum og peningunum skipti þarna engu máli.