Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:09:21 (2357)

2002-12-10 14:09:21# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er sárt til þess að vita að nú í sjálfum jólamánuðinum skuli fjöldi manns varla hafa til hnífs og skeiðar og verði að leita á náðir góðgerðarstofnana til að fá í jólamatinn og fatnað á börnin. Það er staðreynd að mæðrastyrksnefnd og fleiri góðgerðarfélög ná vart að sinna síaukinni eftirspurn. Því hlýtur að vera grundvallarskekkja í uppbyggingu og úrræðum samfélagsins sem veldur því að fólk lifir í sárri fátækt nú í byrjun 21. aldar á Íslandi. Hinir ríku verða stöðugt ríkari á meðan æ fleiri festast í fátæktargildru. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna vex með ári hverju þó vitað sé að ekki nærri allir leita eftir rétti sínum til framfærslu frá sveitarfélagi sínu.

Þeir sem líklegastir eru til að lifa við fátækt eru örorku- og ellilífeyrisþegar, einstæðir foreldrar, atvinnulausir, lágtekjufólk og barnmargar fjölskyldur. Það er ljóst að lægstu laun og lífeyrir almannatrygginga duga ekki fyrir skilgreindum lágmarksframfærslukostnaði og þessu fólki er kerfisbundið haldið í fátækt, fátækt sem er þjóðfélaginu mun dýrari en að hækka lífeyri, létta skattbyrði þessara einstaklinga og draga úr jaðaráhrifum skatta.