Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:10:55 (2358)

2002-12-10 14:10:55# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja máls á stöðu lágtekjuhópa. Að mörgu er að hyggja í því sambandi. Þó er ekki við því að búast að nokkur niðurstaða fáist hér í hálftímaumræðu, enda hefur málshefjandi tæpast ætlast til þess.

Við Íslendingar höfum þróað víðtækt velferðarkerfi og framfærslukerfi fyrir þá sem á þurfa að halda. Nægir þar að nefna lífeyrissjóði, almannatryggingakerfi, félagsþjónustukerfi, húsaleigubætur, sjúkrasjóði, vaxtabætur, barnabætur og aðrar jöfnunaraðgerðir í gegnum skattkerfið auk margs annars.

Nýlega gerði ríkið samkomulag við aldraða og öryrkja sem skilaði verulegu til lágtekjuhópa, meðal aldraðra og öryrkja og er það vel. Ég vil líka nefna að meðal bænda eru lágtekjuhópar. Kannski er sárasti vandinn þar. Ég ætla hins vegar að fjalla um félagsþjónustu sveitarfélaga og fjárhagsaðstoð þeirra.

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur átt sér stað töluverð skipulagsbreyting innan félagsþjónustunnar. Þar er veitt aukin ráðgjöf, bæði á sviði fjármálaráðgjafar og félagslegrar ráðgjafar. Sjálfsákvörðunarréttur notenda hefur verið aukinn og forsjárhyggja er minni. Aðgengi að þjónustunni, bæði ráðgjöf og fjárhagsaðstoð, hefur aukist. Vel menntað fagfólk starfar við félagsþjónustuna og sinnir verkefnum sínum af bestu getu.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að hér er um réttindi að ræða en ekki ölmusu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Félagsþjónustan er síðasta öryggisnetið og jafnframt það virkasta.

Hins vegar er það svo að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er mismunandi eftir sveitarfélögum. Á ráðstefnu sem haldin var sl. mars, um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, kom fram hjá Annýju Ingimarsdóttur að í rannsókn sem hún gerði kom berlega í ljós að mismunur á milli sveitarfélaga, þó um sams konar fjölskyldur væri að ræða, var allt of mikill. Þetta er umhugsunarefni, hæstv. forseti, sem við ættum að skoða í samráði við sveitarfélögin.