Staða lágtekjuhópa

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:24:40 (2364)

2002-12-10 14:24:40# 128. lþ. 50.96 fundur 309#B staða lágtekjuhópa# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Svar hæstv. ráðherra áðan var ótrúlegt. Raunar var það þyngra en tárum taki. Þetta var blaut tuska framan í fátækt fólk á Íslandi. Þetta var köld kveðja til fátækra nú í aðdraganda jólanna.

Hvað var hæstv. ráðherra raunverulega að segja við fátækt fólk? Í hnotskurn má lýsa því þannig að hæstv. félmrh. hafi verið að segja við fátækt fólk að það geti bara étið það sem úti frýs. Hæstv. ráðherra hefur ekkert að segja við atvinnulausa og hann hefur enga skýringu á því af hverju atvinnulausir fá ekki sömu hækkun og lífeyrisþegar um næstkomandi áramót. Og hvað sagði hæstv. ráðherra við fátækt fólk? Hann sagði: ,,Það verður kannski skoðað ef sár fátækt eykst marktækt.`` Hvað meinar hæstv. ráðherra? Þarf að tvöfaldast í röðum hjá hjálparstofnunum og hjá mæðrastyrksnefnd þannig að fátækt sé marktæk á Íslandi? Þarf að þrefaldast í henni? Hæstv. ráðherra tekur ekki einu sinni undir það að skoða skipulega umfang, orsakir og afleiðingar fátæktar og leggja fram tillögur til úrbóta.

Hæstv. ráðherra segir: ,,Við í félmrn. bætum öryggisnetið eftir því sem við teljum þurfa.`` Hæstv. ráðherra og ríkisstjórn telur greinilega að ekkert þurfi að bæta hér kjör hjá fátæku fólki. Þeir sjá ekki. Þeir lifa í slíkum fílabeinsturni að þeir sjá ekki fátæktina sem er að verða sýnilegri og sýnilegri í þjóðfélaginu. Og hæstv. ráðherra er ekki tilbúinn að taka málið upp í ríkisstjórn vegna þess að hann telur málið ekki það brýnt. Þetta er auðvitað til skammar, herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur enga skoðun á því af hverju fátækt fólk er að greiða skatta á Íslandi. Auðvitað getur hann tekið málið upp í ríkisstjórn og stofnað til pólitískrar nefndar milli stjórnarflokkanna um að leysa þetta mál og leita úrræða. En hæstv. ráðherra sér ekki fátæktina. Hann sér ekki fátæktina. Þetta er köld kveðja til fátæks fólks nú í aðdraganda jólanna.