Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 14:32:47 (2367)

2002-12-10 14:32:47# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem eru orðnar allmargar í tímans rás.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið fjölmargar umsagnir og einnig fengið á sinn fund fulltrúa ýmissa aðila sem getið er um á þingskjalinu.

Nefndir gerir á þessu stigi tillögu um breytingar á frv. í þremur liðum. Í 1. lið brtt. frá meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir því að 3. efnismálsliður 1. gr. falli niður, þ.e. sá málsliður sem hljóðar svo að óheimilt sé að auglýsa skattfrelsi vinninga nema fyrir liggi staðfesting ríkisskattstjóra á því að skilyrðum skattfrelsis samkvæmt þessum tölulið sé fullnægt. Þetta er ákvæði sem erfitt er að framkvæma.

Síðan er í 2. lið brtt. gert ráð fyrir því að á eftir 4. gr. frv. komi ný grein þar sem persónuafsláttur hækki örlítið meira en fyrirhugað var. Þar munar 0,4%.

Í 3. lið þessara brtt. frá meiri hluta nefndarinnar er síðan aðeins breyting á 14. gr. þannig að gildistökuákvæðinu er fylgt og lagt til að lögin skuli gefin út upp á nýtt svo breytt með samfelldri greinatölu, kaflanúmerum o.s.frv. þannig að hægt sé að lesa lögin með heildstæðum hætti. Þetta er nauðsynlegt vegna þess hve mörgum breytingum lögin hafa tekið og hve mörg smáatriði og hliðaratriði eru komin inn í lagatextann sjálfan.

Síðan, hæstv. forseti, er hér brtt., undirrituð af fjórum nefndarmönnum, sem ég mæli einnig fyrir. Hún á við 13. gr. frv. sem fjallar um yfirfæranleika rekstrartapa. Þetta á reyndar við um það að sett verði inn nýtt ákvæði til bráðabirgða og miðað við að lengingin á svokölluðum tapsfrádrætti, sem nú er yfirfæranlegur í átta ár og er fyrirhugað að verði tíu ár, gerist í áföngum þannig að fyrst verði tapsfrádrátturinn lengdur í níu ár og síðan í tíu. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að tölvukerfi og tölvuskil á framtölum eru orðin þannig að kerfin mundu illa ráða við það ef breytingin yrði úr átta árum í tíu. Það mundi hafa í för með sér heilmikinn aukakostnað bara út af einu ári og vegna þess að efnislega skiptir þetta ekki höfuðmáli er gert ráð fyrir því að þetta verði þrepað upp.

Hæstv. forseti. Það eru ýmsar breytingar í þessu frv. til laga sem hafa verið ræddar í nefndinni. Sú mikilvægasta hygg ég að sé að fjmrh. mun í framtíðinni gefa út svokallað skattmat á hlunnindum, sbr. 7. gr., á öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum. Þetta er í 12. gr. frv. Einnig er í 4. gr. gert ráð fyrir að fjmrh. gefi út umreiknað endurgjald. Þetta er afar mikilvægt atriði, ekki síst vegna þess skattmats sem gefið var út í upphafi árs 2002 þar sem heilmörgum atriðum í rekstrarforsendum ferðaþjónustu á landsbyggðinni var hreinlega snúið við með því að gefið var t.d. út í skattmati ríkisskattstjóra að árshátíðir mættu ekki kosta fyrirtæki meira en sem nemur 10 þús. á starfsmann eða ef hjón færu bæði á árshátíð og fyrirtækið greiddi væru það 5 þús. kr. á mann. Það liggur fyrir að fyrir fyrirtæki í Reykjavík sem ætlar sér að halda árshátíð og bjóða starfsmönnum og mökum eru 5 þús. kr. á mann ekki há tala og dugir varla fyrir öðru en hálfu kvöldi í 101 Reykjavík. Slík tala mundi ekki hrökkva fyrir því að haldin yrði árshátíð utan höfuðborgarsvæðisins, eins og algengt er, hvorki í Hveragerði, Selfossi svo maður tali ekki um á stöðum eins og Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði eða Borgarnesi. Ef árshátíð er haldin sem fyrirtækið greiðir mundi sá kostnaður teljast að fullu til skattskyldra tekna nema þessu verði breytt. Þess vegna held ég að breyta þurfi þessum hlutum þannig að það sé ráðherra sjálfur sem ber hina pólitísku ábyrgð á því hvernig þessi hlunnindi eru metin. Það gengur alls ekki upp að ríkisskattstjóri eða einhver annar embættismaður geti með einhverri reglugerðarsetningu gert ferðaþjónustu á landsbyggðinni verulega skráveifu með því að taka allt í einu upp einhvers konar hlunnindamat sem felst þá í því að eftirspurn eftir þjónustu í þessari atvinnugrein snarminnkar. Það er þess vegna afar þýðingarmikið að fjmrh. fái það hlutverk að gefa út þetta hlunnindamat og að hann geti þá snúið við og tekið til baka það hlunnindamat sem gefið var út í ársbyrjun 2002 þannig að ferðaþjónustan á landsbyggðinni fái að starfa óáreitt fyrir þessu inngripi í rekstrarforsendur hennar.