Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 15:27:52 (2370)

2002-12-10 15:27:52# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ekki hafa fullan skilning á rekstri fyrirtækja. Hún áttar sig ekki á því að sum fyrirtæki græða en önnur tapa og þegar fyrirtæki er stofnað þá liggur það ekkert fyrir hvort það græði eða tapi. Í því liggur einmitt áhættan.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hún hafi einhvern tíma stofnað eða rekið fyrirtæki, hvort hún hafi einhvern tíma kynnst rekstri fyrirtækis. Ef svarið er já, hvort hún skilji þá ekki að það er alltaf hætta á tapi hjá fyrirtæki, bæði vegna samkeppni, vegna málaferla og ýmissa hluta.

Ef hv. þm. skilur að fyrirtæki geti tapað um árabil, sem oft er reyndin þegar fyrirtæki eru stofnuð því yfirleitt eru fyrstu tvö, þrjú, fjögur árin tapár, þá vil ég vita hvort henni finnist eðlilegt að hagnaðurinn sé skattlagður strax og hann kemur inn þegar hann er í rauninni notaður til þess að greiða lántöku vegna taps, áralangs taps jafnvel.

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. hvort hún viti ekki til þess að margir þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu eru einstaklingar sem tóku áhættu í atvinnulífi en töpuðu, urðu gjaldþrota, og sitja þeir margir hverjir uppi með miklar skuldir sem þeir verða að borga en engar eignir á móti. Sumt af þessu fólki gætti þess jafnvel ekki að borga í lífeyrissjóð þannig að það á ekki rétt úr lífeyrissjóði þó að það hafi reyndar átt að borga í lífeyrissjóð, þó að það hafi veitt fjölda manns vinnu í fjölda ára og borgað fyrir þá í lífeyrissjóð, og þó að starfsmennirnir séu allir með góð lífeyrisréttindi.