Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 15:29:46 (2371)

2002-12-10 15:29:46# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þó það hafi nú ekki orðið hlutskipti mitt að reka fyrirtæki þá tel ég mig hafa sýnt það í tillögum sem ég hef flutt hér að ég hef skilning á því að skattumhverfi fyrirtækja sé hér eðlilegt og gott. Við í Samfylkingunni höfum stuðlað að breytingum á því til þess að svo yrði.

Ég minni t.d. á að við studdum ekki þá tillögu sem ég tel að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi stutt, þ.e. að hækka tryggingagjald á fyrirtæki til þess að lækka enn meira skatta á stórfyrirtæki en ástæða væri til. Sjálfstæðismenn vildu fara með skatthlutfallið úr 30% niður í 18% en það var nægjanlegt að fara með skatthlutfallið í 25% til þess að fyrirtæki hér á landi héldu skattalegu forskoti á aðrar þjóðir. En svo mikið lá við að fara alveg niður í 18% að það þurfti að hækka tryggingagjald, sem kom sér sérstaklega illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og á því hafði Sjálfstfl. greinilega engan skilning. Hann hefur ekki meiri skilning á stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja en svo að hann hverfur frá því að taka fyrsta áfangann í því að lækka stimpilgjöld á fyrirtæki sem hefði komið sér sérstaklega vel fyrir fyrirtækin og skuldug heimili. Þetta eru tillögur sem við í Samfylkingunni og ég sem fulltrúi Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. höfum lagt sérstaka áherslu á.

Ég hef fullan skilning á því að eðlilegt sé að það sé heimilt að nýta rekstrartöp fyrirtækja í ákveðinn tíma. En afskriftarreglur og fyrningargrunnur og annað er hér óeðlilega rúmt. Það er ástæða til þess að skoða það sérstaklega og auka þetta ekki enn frekar en gera á með því að færa heimildina úr átta árum í tíu ár með því skattalega tapi sem því fylgir. En svo sannarlega er eðlilegt að það sé hægt að nýta þessi töp. En það er hægt að ganga of langt í því, eins og Sjálfstfl. hefur oft áður gert. Hann hugar ekki að heildinni og hann býr ekki vel að litlum og meðalstórum fyrirtækjum eins og ég hef sagt.