Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:12:40 (2375)

2002-12-10 16:12:40# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka framsögumönnum fyrir mjög svo greinargott yfirlit yfir málið, bæði formanni nefndarinnar og ekki hvað síst framsögumönnum 1. minni hluta og 2. minni hluta.

Ég get hins vegar ekki stillt mig um það, herra forseti, að nefna að mér finnst umgjörðin í kringum þessa umræðu vera afskaplega dapurleg. Ég sat á þingi fyrir tæpum fjórum árum og var í þessari ágætu nefnd sem hér er verið að gera að umtalsefni, þ.e. efh.- og viðskn. Ég kom hingað inn sem varaþm. í síðustu viku, og verð væntanlega út þessa viku, og ég man ekki eftir svona lítilli pólitískri spennu í þingsölum eins og er núna. Það er kannski ekki hægt að kvarta yfir því, það ræðst af aðstæðum, en ég man heldur ekki eftir jafnáhugalausri umræðu burt séð frá pólitískum ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Hér í þingsal eru sárafáir, og einungis nokkrir af nefndarmönnum. Þetta er ekki sérstaklega tengt þessari umræðu heldur líka annarri sem hefur verið hér sl. daga. Ég hef fylgst nokkuð vel með því og þetta hefur allt það einkenni að áhugaleysi þingmanna á þátttöku í umræðunum finnst mér vera miklum mun meira en var t.d. á síðasta kjörtímabili. Ég vildi, herra forseti, einfaldlega koma þessum áhyggjum mínum á framfæri við hæstv. forseta og biðja hann um að íhuga það og ræða jafnvel í forsn. hvað veldur. Þingmenn hér segja mér að þetta hafi einkennt vinnubrögðin í haust og kannski lengri tíma af kjörtímabilinu. Það er alvarlegt fyrir þingið ef það nær ekki sjálft að kveikja áhugaverðar umræður og skoðanaskipti og þá blasir við að fólkið úti í samfélaginu hafi tæpast mikinn áhuga á því sem hér er verið að ræða. Ég dreg ekki í dilka stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég er að tala um þetta sem maður sem ann þessu starfi sem hér fer fram, þ.e. þinginu og virðingu þess, og mér sýnist hér vera pottur brotinn.

[16:15]

Margt er að athuga við það frv. sem hér er verið að ræða. Það er eiginlega fyrst og fremst það að í því kemur fram grundvallarafstaða, og ég kann alltaf best við stjórnmál þegar þau lýsa grundvallarafstöðu. Ríkisstjórnin leggur fram frv. til breytinga á tekju- og eignarskatti sem er helsta löggjöfin í stjórn sérhverrar ríkisstjórnar. Breytingarnar sem hér er verið að gera eru ekki stórvægilegar en þær fara í sömu átt. Annars vegar er verið að lengja fyrningartíma skattataps úr átta í tíu ár og að lækka síðan svokallaðan hátekjuskatt úr 7% niður í 5%.

Hér er enn og aftur verið að breyta lögum til hagsbóta fyrir fyrirtæki og fyrir þá sem betur mega sín. Þetta hefur verið rauði þráðurinn í nær öllum skattalagabreytingum núv. ríkisstjórnar allt kjörtímabilið og kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Ég kalla enn og aftur eftir skýrum línum.

Eins og hv. frsm. 1. minni hluta, Jóhanna Sigurðardóttir, gerði hér ágætlega grein fyrir, þ.e. stefnu Samfylkingarinnar, þá teljum við að þessi stefna sé í grundvallaratriðum röng. Það ber að stokka upp skattamálin þannig að létta skattbyrði á einstaklingum.

Tekjuskattur einstaklinga sem tekjustofn fyrir ríkisvaldið hefur verið að aukast á undanförnum árum. Þetta hefur farið saman við mikla aukningu skulda heimilanna og það er mjög sláandi, herra forseti, að skuldir heimilanna voru fyrir 22 árum eða árið 1980 20% af ráðstöfunartekjum en þetta hlutfall er núna 180%. Skuldir heimilanna hafa nífaldast á þessum 20 árum. Ef heimilistekjur voru fyrir 20 árum 5 milljónir þá skuldaði einstaklingur eða fjölskyldan 1 milljón. Þessi sama fjölskylda skuldar núna 9 milljónir. Menn geta rétt ímyndað sér hvað það er erfiðara að standa skil af því nú en þá.

Einnig er athyglisvert að bera það saman að ekki einungis hefur skuldastaða heimilanna vaxið verulega heldur hefur atvinnuleysi líka vaxið. Við erum núna að tala um tæplega 3% atvinnuleysi, talað er um 3% á næsta ári og fregnir berast um það, herra forseti, hafðar eftir embættismönnum úr Seðlabankanum, að nýjar tölur sýni miklu meiri skuldasöfnun heimilanna en áður var getið um og líka að atvinnuleysið stefni í hærri tölu. Ég vil spyrja hv. formann efh.- og viðskn. hvort hann geti staðfest þær upplýsingar, þ.e. að til séu nýjar tölur um skuldasöfnun heimilanna sem eru væntanlega mun hærri en þær sem ég er hér að vitna til, sem mér finnst nú alveg nóg um, og hitt líka, sem er enn alvarlegra, það mat að atvinnuleysi stefni í 5% á næsta ári. Ég held að það væri mjög athyglisvert ef hér eru uppi slíkir spádómar sem raktir eru til ábyrgra hagstofnana.

Ef borinn er saman tekjuskattur einstaklinga hér og í öðrum löndum, þá skilar tekjuskattur einstaklinga hér á landi 30% hærri hlutdeild í tekjum ríkisvaldsins en er að meðaltali innan OECD og Evrópusambandsins, þ.e. tekjukattur einstaklinga er miklum mun stærra hlutfall af tekjum ríkisvaldsins hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Gott og vel, en hvað með tekjuskatt fyrirtækja? Jú, það eru líka til tölur um það. Tekjuskattar fyrirtækja skila helmingi þess sem er að meðaltali innan OECD og Evrópusambandsins. Og hér sjáum við, herra forseti, glöggt hvar áherslur núv. ríkisstjórnar liggja. Þær liggja í því að skattbyrði var létt stórlega af fyrirtækjum, m.a. tekjuskatti, og hún er komin langt undir það sem er algengast í nágrannalöndunum, á sama tíma og einstaklingarnir eru látnir bera sífellt stærri byrðar.

Þetta er ekki góð aðferðafræði. Yfirleitt eiga menn í skattamálum að skoða hvað verið er að gera í næstu löndum því að fátt er nú eins lítið markvisst og að reyna að finna upp hjólið í skattamálum eða á öðrum sviðum. Virðisaukaskattur sem er helsti tekjustofn ríkisvaldsins skilar mun hærri hlut skatttekna en erlendis. Hér skilar virðisaukaskatturinn um 45% en innan OECD og Evrópusambandsins eru svipaðar tölur, þ.e. hlutdeild um 30%. Við erum með hæsta hlutfall virðisaukaskatts sem tekjuöflun fyrir ríkisvaldið, við erum hæst af öllum ríkjum OECD, þessum tæpu 30 ríkjum, fyrir utan Mexíkó, það er eina ríkið þar sem virðisaukaskattur skilar meiri hluta af tekjunum.

Herra forseti. Hér hef ég nefnt þrjá þætti sem skera sig úr og ég tel að sé að ýmsu leyti ekki góð þróun. Í fyrsta lagi hvað virðisaukaskatturinn er orðinn hátt hlutfall, enda er hann hár hér á landi miðað við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Í öðru lagi hvað mikill munur er á tekjuskatti fyrirtækja hér og erlendis og hvað hann er mun minni tekjustofn hér. Og í þriðja lagi hvað tekjuskattur einstaklinga er stærri hlutdeild hér á landi miðað við næstu lönd. Sum gjöld hér eru lægri en annars staðar eins og t.d. launatengd gjöld. Þessi skattastrúktúr eða skattauppbygging er í grundvallaratriðum röng.

Það er vitaskuld gott að hafa lága skatta á fyrirtæki og þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur gert á undanförnum árum hafa alls ekki verið alslæmar. Hins vegar má alveg færa rök fyrir því að of langt hafi verið gengið og nær væri í sambandi við skatta á fyrirtæki að lækka núna skatta með sértækum hætti gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Skattbyrði hér er orðin mikil sem hlutfall af landsframleiðslu. Hún hefur aukist á undanförnum árum, hún er farin að nálgast 40% og þar sem við vorum á árum áður með mun lægri opinber umsvif en nágrannalöndin, þá gildir það alls ekki í þeim sama mæli og var hér áður fyrr. Og það er e.t.v. þeim mun alvarlegra líka, þegar við lítum til þess að ýmislegt hjá okkur er með veikara móti en annars staðar, t.d. á Norðurlöndunum, og má nefna sérstaklega velferðarmál og menntamál þar sem við stöndum þessum þjóðum töluvert að baki.

Ég tel vera mjög brýnt að lækka skatta á launafólki með lægri tekjuskattsprósentu. Hægt er að útfæra það á ýmiss konar máta, t.d. með tveimur þrepum, því að við erum nú með tveggja þrepa kerfi þar sem hátekjuskatturinn er sérstakt þrep. Hægt er að benda á lönd eins og Danmörku þar sem slíkt kerfi er til staðar. Einnig má nefna lönd eins og Þýskaland þar sem þrepin eru reyndar óendanlega mörg þar sem unnið er eftir stærðfræðijöfnu. Það er ekkert sem kallar á það að við þurfum endilega að hafa eina skattprósentu á tekjur einstaklinga, enda höfum við ekki farið þá leið.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, varðandi skattleysismörkin sem menn hafa oft rætt um og oft hefur verið talað um að skynsamlegt væri að hækka þau, að ég tel það ekki skynsamlegt einfaldlega vegna þess að skattleysismörkin hafa komið út sem fátæktargildra fyrir launafólk í landinu. Það hefur reynst þannig að skattleysismörkin hafa virkað sem hindrun í launasamningum til að fara yfir, m.a. vegna jaðarskattaáhrifa þegar menn fara í tiltölulega hátt skattþrep. Því að vandamálið hjá launafólki með lágar tekjur er ekki skattkerfið í sjálfu sér heldur of lág laun.

Lægstu launin hér, sem vitaskuld á að semja um í kjarasamningum, hafa ekki náð því marki sem algengast er í nágrannalöndunum. Þeir sem greiða engan tekjuskatt núna, og þeir eru býsna margir í okkar umhverfi, það er ekki í gegnum skattkerfið sem við eigum að gera endurbætur, heldur með styrkara velferðarkerfi, sérstaklega gagnvart þeim sem verst eru settir.

Það er alveg ný staða, herra forseti, í samfélagi okkar að vinnandi fólk, fullfrískt vinnandi fólk sem vinnur venjulegan vinnudag, hefur ekki í sig og á. Það er fátækt. Við þekkjum vel mörg dæmi þess að fólk nær ekki endum saman og hefur ekki náð endum saman í lífsbaráttunni og þá hefur oft verið sjúkdómum um að kenna, jafnvel óreglu eða ýmsum öðrum þáttum sem fólk þekkir alveg ágætlega. En það er nýtt í samfélagi okkar að fólk sem vinnur fullan vinnudag sé með verulegar efnahagslegar áhyggjur. Og það er alvarlegt þegar við hugsum til þess að verst staddi hópurinn sem svo er ástatt um eru lítt menntaðar, einstæðar mæður sem eiga afskaplega litla möguleika í samfélaginu hvað varðar launakjör. Það er eitthvað að í samfélagi okkar sem hefur alltaf einkennst af því að þeir sem vinna fullan vinnudag hafa getað leyft sér það sem fólk sættir sig við í nútímaþjóðfélagi. Þetta er liðin tíð og svo sjáum við afleiðingarnar hjá þeim sem verst eru settir, hvernig starf samtaka eins og mæðrastyrksnefndar og fleiri slíkra hefur stóraukist á síðustu missirum.

Það er greinilegt, herra forseti, að þjóðfélagið er að breytast og það er ekki að breytast til batnaðar. Það er augsýnilegt að náungakærleikur er minni í samfélaginu en var áður. Og það er vert umhugsunar þegar jólin nálgast að svo skuli vera komið fyrir okkur.

Við þekkjum líka nýjar afleiðingar af þessu breytta samfélagi að það fólk sem missir vinnuna og er komið t.d. um sextugt eða yfir sextugt fær ekki vinnu og það gengur um atvinnulaust eða sækir um, sendir tugi eða hundruð umsókna og fær engin svör við þeim. Þetta er líka nýtt í samfélagi okkar og þetta er ekki samfélag sem við jafnaðarmenn viljum.

Við höfum þvert á móti lagt áherslu á að skattkerfinu þurfi að breyta í þá átt að fjármögnun á lækkun tekjuskatts einstaklinga sé til að mynda í gegnum auðlindagjöld, gegnum mengunargjöld, og það má líka velta fyrir sér varðandi tekjuskatt einstaklinga hvort við eigum að fara þá leið sem Danir hafa gert, að eyrnamerkja tekjur sem skattstofn sveitarfélaga. Nú er tekjuskattur einstaklinga að langmestu leyti tekjustofn sveitarfélaga og það mætti alveg hugsa sér róttæka uppstokkun á þessu kerfi og heimila sveitarfélögum þennan skattstofn ásamt færslu frekari verkefna til þess stjórnsýslustigs. Mér finnst, herra forseti, það koma vel til greina.

Ljóst er að við stöndum að mörgu leyti á nokkrum tímamótum. Við erum að ljúka kjörtímabili núv. ríkisstjórnar sem hefur verið að hrósa sér af mjög mörgu í efnahagslífinu. En sé hagvöxtur borinn saman við hagvöxt innan OECD þá hefur hann að meðaltali síðustu tíu ár verið um 2,8% sem er nákvæmlega það sama og er innan OECD. Hann hefur ekkert verið meiri og hann hefur ekkert verið minni og núna í ár er hann minni en í nágrannalöndunum og gert er ráð fyrir að á næsta ári verði hann enn minni. Þetta eru hlutir sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Frumvarp það sem hér er til umræðu markar mjög skýrt stefnu og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við í Samfylkingunni höfum lagt til aðrar leiðir í sambandi við skattamál þar sem við viljum að þessum byrðum verði réttlátlega skipt og að loksins verði fólk látið vera í fyrirrúmi og þannig verði reynt að vinna úr þeim þrengingum sem eru að nokkru leyti í þjóðarbúinu en ekki hvað síst hjá einstaklingum vegna skuldasöfnunar og lágra tekna. Það eru þeir hópar sem við í Samfylkingunni berum hvað mest fyrir brjósti.