Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 16:44:43 (2384)

2002-12-10 16:44:43# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, KHG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[16:44]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru býsna mörg atriði í þessu frv. til umræðu. Ég vil fjalla um þrjú þeirra sem ég tel rétt að gera að umtalsefni og skýra afstöðu mína til. Ég staldra fyrst við brtt. í frv. um það að heimila yfirfæranleg rekstrartöp í tíu ár í stað átta. Ég vek athygli á því að á undanförnum áratug hafa verið gerðar miklar breytingar á umhverfi fyrirtækja, sérstaklega hvað varðar skattaumhverfi. Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður úr 50% niður í 18% og yfirfæranleg rekstrartöp hafa verið framlengd upp í átta ár úr því sem áður var, mig minnir sex árum eða kannski fimm. Ég hef staðið að þessum breytingum í gegnum árin og talið þær skynsamlegar.

Það er nauðsynlegt fyrir framgang í efnahagslífi að atvinnufyrirtæki hafi góðan grundvöll til að starfa á og að skattalöggjöfin stuðli að því að fyrirtækin sæki fram og geti eflst í starfi sínu og rekstri. Mér finnst það því skynsamlegt að mörgu leyti sem menn hafa staðið að á undanförnum árum og hef stutt það dyggilega. Hins vegar eru auðvitað takmörk fyrir öllu og rétt að íhuga hlutina þegar haldið er áfram á sömu braut. Það er ekki sjálfgefið að á þessu sé enginn endir, menn þurfa auðvitað að velta hlutunum fyrir sér í ákveðnu samhengi.

Lítum aðeins á hvernig afstaðan er í atvinnulífinu um þessar mundir, m.a. vegna þeirra breytinga sem ég rakti að hefðu verið gerðar á undanförnum árum. Afkoma fyrirtækja hefur verið mjög góð, bæði á þessu ári og reyndar til lengri tíma. Það er ekki hægt að segja annað en að staðan í atvinnulífinu hafi verið mjög sterk, eins og kemur fram í því að atvinnustig er mjög hátt. Það er mikið framboð af störfum sem fólki standa til boða og atvinnuleysi er lítið. Það er m.a. vegna þess að atvinnufyrirtækin hafa verið öflug. Við þessar aðstæður, þegar staðan er sterk og afkoman góð er fyrirsjáanlegur mikill hagnaður í atvinnulífinu. Nýlega birtust fréttir um að í sjávarútvegi sé því spáð að á þessu ári verði hagnaðurinn um 20% af tekjum í þeirri grein. Það gæti þýtt um 25--30 milljarða kr. ef þær spár ganga eftir. Við sjáum líka ef við skoðum áætlaða afkomu fyrirtækja á Verðbréfaþingi að þar koma svipaðar tölur fram. Menn sjá fram á mjög góða afkomu í atvinnustarfsemi og verulegan hagnað og þá er auðvitað eðlilegt að menn borgi til samfélagsins í sköttum af hagnaði þannig að fyrirtækin leggi sitt af mörkum líka til þess að standa undir velferðarþjóðfélaginu sem við rekum hér á landi. Þetta finnst mér ákaflega eðlilegt sjónarmið og vil koma því hér að að mér finnst að það megi halda því meira á lofti þegar vel gengur og m.a. vegna þess að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa rekið skynsamlega atvinnustefnu, sem leiðir til góðrar afkomu í atvinnulífinu, sé eðlilegt að það skili sér að lokum í því að fyrirtækin greiði skatta af hagnaði sínum til samfélagsins.

Mér finnst vera komið að þeim tímapunkti að menn þurfi aðeins að velta þessu fyrir sér áður en lengra er haldið í þessum efnum. Þar staldra ég m.a. við upplýsingar sem hafa komið fram í þinginu um að tekjuskattar lögaðila hér á landi eru verulega lægri en tekjuskattar lögaðila í ríkjum innan OECD, eins og minnst var á fyrr í þessari umræðu. Það kemur fram í þingskjali 462 sem hér hefur verið útbýtt að tekjuskattar lögaðila í ríkjum OECD eru taldir vera um 3,6% af vergri landsframleiðslu árið 2000. Á Íslandi er þetta hlutfall árið 2000 talið vera 1,2%, þ.e. aðeins u.þ.b. 1/3 af því sem tekjuskattur lögaðila innan OECD skilar að meðaltali í ríkissjóð viðkomandi ríkja. Og maður veltir fyrir sér: Eigum við að hafa þessa hluti svona? Getur það verið eðlilegt til lengri tíma að lögaðilar hér á landi greiði aðeins um 1/3 í tekjuskatt af hagnaði sínum miðað við það sem gerist að meðaltali innan OECD?

Ég held að svarið við því sé að ekki er sjálfgefið að það eigi að vera svona. Ég held því að menn eigi að velta þessum hlutum fyrir sér og fara ofan í þá því við sjáum auðvitað hina hliðina á því sem kemur fram í þessu sama þingskjali, að tekjuskattar einstaklinga hér á landi eru hærri en þeir eru að meðaltali innan ríkja OECD, nokkurn veginn jafnmiklu hærri og tekjuskattar fyrirtækja eru lægri. Miðað við þær upplýsingar sem ég vitnaði til eru tekjuskattar einstaklinga í ríkjum innan OECD um 10% af vergri landsframleiðslu árið 2000 en hér á landi um 12,8%. Ef við leggjum þetta saman má segja að einstaklingar og lögaðilar skili í tekjuskatt svipaðri fjárhæð, mælda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hér á landi og í ríkjum innan OECD. Heildin er svipuð því sem gerist annars staðar en skiptingin er frábrugðin.

Þetta bendir til þess að ef við ákveðum að tekjuskattar lögaðila verði lægri leiðir af því að tekjuskattar einstaklinga verða að vera hærri til að ná inn tekjum. Íslenska ríkið þarf væntanlega svipaðar tekjur og ríkissjóðir annarra landa til að halda uppi svipaðri starfsemi og sams konar velferðarþjóðfélagi og við erum með í dag.

Mér finnast þessar upplýsingar umhugsunarefni og hvetja til þess að maður staldri við áður en lengra er haldið á þeirri braut að festa í sessi breytingar sem gætu stuðlað að því að tekjuskattar lögaðila lækkuðu enn frekar en verið hefur.

Í öðru lagi hafa líka komið fram upplýsingar um yfirfæranleg rekstrartöp sem mér finnast vera mikið umhugsunarefni. Ég ítreka að ég hef stutt það til þessa að heimila yfirfærslu á rekstrartöpum á milli ára því ég tel það skynsamlegt út frá sjónarmiðum atvinnurekstrar. Í upplýsingum frá fjmrn. sem lagðar voru fyrir efh.- og viðskn. kemur fram að á síðasta ári, sem var ekki slæmt ár í sjálfu sér í atvinnurekstri, hafi hrein aukning á yfirfæranlegu rekstrartapi verið um 57 milljarðar kr. og samtala yfirfæranlegs taps hafi hækkað úr 113 milljörðum í 161 milljarð á milli ára. Þetta er náttúrlega gríðarleg hækkun á yfirfæranlegum rekstrartöpum sem síðar mun auðvitað leiða til minni skattgreiðslna af eðlilegum ástæðum og mér finnst ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvernig á því standi að þetta er svona mikil aukning í tiltölulega góðu árferði í atvinnurekstri. Getur verið að þær reglur sem við styðjumst við heimili að einhverju leyti svo mikla gjaldfærslu á kostnaði að það leiði til slíkrar niðurstöðu þótt aðstæður séu góðar?

Ég velti fyrir mér þeim reglum sem gilda um gjaldfærslu á fjármagnskostnaði í tengslum við breytingar á gengi og slíku. Það eru auðvitað ansi háar fjárhæðir sem einstök skuldug fyrirtæki geta fært til gjalda við það eitt að miklar breytingar verði á gengi þó að skuldbindingar fyrirtækisins innan ársins breytist ekki nema brot af þeirri fjárhæð sem færð er til gjalda. Verið er nefnilega að færa til gjalda á einu ári áætlaðan kostnað yfir langt tímabil fram í tímann. Mér finnst spurning hvort ekki eigi að endurskoða þetta og skoða hvort ástæða sé til að afmarka gjaldfærsluna við árið en ekki lánstímann.

Mér finnast þessar tölur stefna þannig að fyllsta ástæða sé fyrir yfirvöld til að skoða þær í fullri alvöru, ekki endilega í þeim tilgangi að smíða reglur sem eru harðari fyrir atvinnureksturinn heldur til að koma í veg fyrir að reglurnar geti í raun og veru búið til kostnaðarliði sem ekki er ástæða til að færa til gjalda eins og gerist með fjármagnskostnaðinn.

Það er líka annað sem hefur komið upp og gerir það að verkum að við ættum kannski að skoða hvaða reglur við höfum við heimild til þess að færa töp á milli ára og milli fyrirtækja. Fyrirtæki sem eru ákaflega vel stöndug og skila góðum hagnaði eru jafnvel skattlaus árum saman vegna þess að þau hafa tryggt sér töp úr öðrum atvinnurekstri, úr öðrum fyrirtækjum. Það er álitamál hvort eðlilegt sé að heimila reglurnar með svo rúmum hætti eins og verið hefur hér á landi þó að þær hafi verið þrengdar í gegnum árin eins og kunnugt er.

Mér fannst þetta mjög eðlilegur hlutur á síðasta áratug, t.d. eftir stöðuna sem var komin upp í sjávarútvegi á árunum 1988--1999 þar sem söfnuðust feiknarlega miklar skuldbindingar sem fyrirtækin urðu auðvitað að reyna að axla. Þá var m.a. heimilað að lengja yfirfæranleg töp, láta þau ná yfir fleiri ár en áður var til þess að gefa fyrirtækjum ráðrúm til að borga niður þessar skuldir. Mér fannst það mjög eðlilegt en nú erum við komin það langt frá þessum tíma og mörg fyrirtæki, sem í dag eru öflugustu fyrirtækin í sjávarútvegi og reyndar mörgum öðrum atvinnugreinum, eiga ekki þá fortíð sem rökstuddi þessar breytingar.

Mér finnst því, herra forseti, full ástæða til að taka þessi mál til athugunar og bera saman þær reglur sem gilda að þessu leyti í ýmsum öðrum ríkjum Evrópu sem við berum okkur saman við áður en við höldum miklu lengra á þessari braut. Þess vegna hef ég sett fyrirvara við stuðning minn við það að lengja yfirfærslu rekstrartapa upp í tíu ár. Mér finnst að mörgu leyti ekki eðlilegt í feiknarlegu góðu árferði eins og nú er að rýmka svona um fyrir möguleikum fyrirtækja sem ganga mjög vel og geta borið sín gjöld og eiga að sjálfsögðu að leggja sitt af mörkum í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Á hinn bóginn er rétt að undirstrika að þessi breyting snertir ekki stærstu tölurnar í þessum þætti, þ.e. rekstrartöpin. Það eru auðvitað fyrstu árin, fyrstu þrjú árin, sem eru langstærst og mér finnst vera alvarlegast eða mesta umhugsunarefnið sú mikla fjárhæð sem myndaðist á síðasta ári, um 57 milljarðar kr. Aðstæður í atvinnulífinu voru auðvitað ekki slíkar að unnt sé að færa fullnægjandi rök fyrir því að þetta sé eðlileg spegilmynd af þeirri stöðu sem fyrirtækin voru í á síðasta ári.

Herra forseti. Í öðru lagi er um að ræða breytingar í 8. gr. frv. sem ég hef líka sett fyrirvara við. Eins og gildandi lög kveða á um er hlutverk skattstjóra að annast skatteftirlit og vísast þar til 102. gr. laganna en þar segir, með leyfi forseta:

,,Skattstjórar annast skatteftirlit, hver í sínu umdæmi. Þá hefur ríkisskattstjóri á hendi yfirstjórn skatteftirlits og skatteftirlit á landinu öllu. Skatteftirlitið nær til eftirlits samkvæmt lögum þessum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af skattstjórum eða þeim falin framkvæmd á.``

[17:00]

Í frv. er lagt til að bæta því við að fjmrh. geti ákveðið að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Breytingin er skýrð með því að ætlunin sé að færa starfsemi sem í dag er hjá ríkisskattstjóra til tveggja skattumdæma á landsbyggðinni, þ.e. á Akranesi og Akureyri þannig að skattstjórinn á Vesturlandi og skattstjórinn á Norðurl. e. fái verkefni sem í dag eru unnin hjá ríkisskattstjóra og að þeir fái heimild samkvæmt lögum eða geti fengið heimild samkvæmt ákvörðun fjmrh. til þess að annast skatteftirlit í öðrum skattumdæmum en sínu eigin, þ.e. að skattstjórinn á Vesturlandi fái þá heimild til að annast skatteftirlit á Suðurlandi, Vestfjörðum og Norðurl. v. og skattstjórinn á Norðurl. e. fái hemild til þess að annast skatteftirlit í umdæmi skattstjórans á Austurlandi. Þetta er mjög umdeilanleg breyting. En það sem ég tel jákvætt í henni er að það er verið að reyna að færa störf frá höfuðborgarsvæðinu til embætta á landsbyggðinni. Ég dreg enga dul á að ég tel það góða viðleitni að reyna að færa þessa starfsemi og styrkja þar með atvinnu á þeim stöðum þangað sem þessi starfsemi fer.

Hins vegar bendi ég á að þessa breytingu væri hægt að gera án þessara lagabreytinga. Starfsmenn ríkisskattstjóra geta auðvitað starfað annars staðar en hjá embætti skattstjórans í Reykjavík. Þeir gætu þess vegna starfað á Vesturlandi og Norðurl. e. Í öðru lagi gætu þeir, þó þeir yrðu starfsmenn skattstjórans á Vesturlandi og Norðurl. e., afmarkað starfsemi sína við þau umdæmi en ekki hin fjögur. Það er ljóst af umsögnum sem fyrir liggja um þessa tillögu að skattstjórar þessara fjögurra embætta, á Vestfjörðum, Norðurl. v., Austurlandi og Suðurlandi, eru andvígir þessari breytingu. Þeir vilja frekar hafa skatteftirlitið áfram hjá ríkisskattstjóra en þessa breytingu, enda er að mörgu leyti óeðlilegt að í einhverju tilteknu skattumdæmi geti verið tveir skattstjórar. Þetta þýðir að í þessum fjórum umdæmum sem ég nefndi er sú staða uppi eða getur verið uppi í mörgum málum að þar séu tveir skattstjórar og fari þá eftir því hvaða mál er um að ræða hvor er skattstjórinn. Þetta held ég að sé ástand sem ekki er skynsamlegt og hef því allan fyrirvara á um stuðning við þessa breytingu.

Ég óttast satt að segja, herra forseti, þó að það komi hvergi fram í þessum gögnum, að þessi breyting sé fyrsta skrefið í því að leggja niður þessi fjögur skattumdæmi og hafa á landsbyggðinni einungis tvær skattstofur, þ.e. á Akranesi og Akureyri. Ég óttast það. Ég er ekki alveg tilbúinn til að stíga skref af þessu tagi fyrr en menn hafa þá með rökum eytt þeim grunsemdum sem uppi eru um þetta. Ég held að það sé ekki til góðs að breyta þessu kerfi skattumdæma á þann veg að það verði bara tvö skattumdæmi á landsbyggðinni í staðinn fyrir sex ef það leiðir til þess að þau störf sem eru í þessum fjórum umdæmum leggist niður og færist til þeirra tveggja staða sem mundu annast þessi verkefni. Ég vil hafa alveg fulla vissu fyrir því, herra forseti, að það sé ekki verið að fikra sig inn á þá braut sem getur leitt þetta af sér. Þess vegna hef ég allan fyrirvara á stuðningi við þessa tillögu sem felst í 8. gr. frv.

Í þriðja lagi er að finna í frv. breytingar sem ég á dálítið erfitt með að átta mig á. Breyting í 12. gr. frv. kveður á um að það verði fjmrh. en ekki ríkisskattstjóri sem gefi út reglur um mat á hlunnindum. Reyndar er í 4. gr. frv. breyting sem færir verkefni ríkisskattstjóra, sem sé það að setja reglur um reiknað endurgjald, frá ríkisskattstjóra til fjmrh. Ég velti því fyrir mér til hvers verið er að gera lagabreytingar um að færa verkefni ríkisskattstjóra úr höndum hans í hendur fjmrh. Í skýringum með frv. er tiltekið að meiningin sé að fleiri en eitt stjórnvald komi að ákvörðuninni. Mér finnst það léttvæg skýring satt að segja, herra forseti. Þetta fyrirkomulag hefur verið svona til þessa og ekki verið að því fundið að það sé svona.

Í öðru lagi er þetta fyrirkomulag með þessum hætti í öðrum ríkjum á Norðurlöndunum, þ.e. að embætti ríkisskattstjóra gefur út þessar ákvarðanir en ekki ráðherra. Mér finnst þurfa sérstakan rökstuðning fyrir því að taka upp fyrirkomulag sem er frábrugðið því sem gerist erlendis og því sem hefur verið hér á landi áður en ég sannfærist um að rétt sé að stíga skref af þessu tagi. Mér finnst satt að segja dálítið óþægilegt að ræða þessar tillögur í efh.- og viðskn. án þess að hafa handbærar skýringar á því hvers vegna þessar tillögur eru lagðar til. Eins og fram kom í máli hv. formanns efh.- og viðskn. virðist hafa risið upp ágreiningur um mat ríkisskattstjóra á hlunnindum hvað varðar möguleika fyrirtækja til að bjóða starfsmönnum sínum út í veislu eða árshátíð. Það var upplýst í nefndinni að fyrirtækin hefðu fulla heimild til að gjaldfæra þann kostnað í sínum bókum. En hins vegar þýddu reglur ríkisskattstjóra það að það yrði að tekjufæra á einstaklingana sem hlunnindi þær fjárhæðir sem yrðu umfram tilgreindar fjárhæðir.

Það var líka upplýst að embætti ríkisskattstjóra hefði sent þessar reglur til fjmrh. eða fjmrn. sem hafi gert athugasemdir við það sem embætti ríkisskattstjóra hafi orðið við. Því er ljóst að fjmrn. gat komið að sínum athugasemdum og það var tekið fullt mark á þeim. Þá finnst mér vanta alveg ástæðuna fyrir því hvers vegna verið er að gera þessa breytingu. Ef einhverjir samstarfsörðugleikar eru á milli embætta ríkisskattstjóra og fjmrn. þá á að leysa úr þeim öðruvísi en með lagasetningu sem færir verkefni frá ríkisskattstjóra yfir til fjmrh. Það er alveg ljóst t.d. að embætti ríkisskattstjóra hefur það verkefni og hefur haft það að leggja mat á ákveðna hluti eins og þarna er tilgreint. Það er ekki hægt að benda á að hann hafi farið út fyrir lagarammann í þeim ákvörðuum sínum. Ef mönnum finnst ákvarðanir vera of þröngar þá er eðlilegt að menn fari ofan í lagasetninguna og breyti henni þannig að hún endurspegli það sem menn ætlast til að fá út úr þeim ákvæðum fremur en að gera breytingar á því hver tekur ákvörðun um þessa hluti eins og lagt er til í frv. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér finnst ekki skynsamlegt að gera þessa breytingu. Mér finnst hún ekki leysa þau vandamál sem menn hafa gefið upp að séu ástæða þessara tillagna. Þær eru í algerri andstöðu við það fyrirkomulag sem við höfum haft og það fyrirkomulag sem gildir annars staðar. Ég er hræddur um að menn skapi bara vandamál sem verður að taka á síðar ef þessar breytingar ná fram að ganga.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir þeim athugasemdum sem ég hef við þetta mál og taldi rétt að hreyfa hér í umræðu þannig að menn veltu þeim hlutum fyrir sér. En ég legg áherslu á að ég tel að það skipti auðvitað ákaflega miklu máli sem menn hafa verið að gera á undanförnum árum, þ.e. að búa atvinnulífinu það umhverfi skattalega séð að það stuðli að þróttmiklu atvinnulífi sem það hefur gert eins og við getum sannfærst um þegar við skoðum tölur um atvinnu og tölur um afkomu. Mér finnst að þegar stjórnvöld skapa svona góð skilyrði fyrir atvinnu þá eigi það að skila sér í því að atvinnureksturinn greiði í ríkissjóð af hagnaði sínum eðlilegan hlut og að atvinnurekendur séu stoltir af því.