Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:15:42 (2388)

2002-12-10 17:15:42# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sá langi tími sem hægt er að geyma umrædd töp geri fyrirtækjum kleift að búa til úr þeim fjármuni sem hægt er að versla með milli fyrirtækja. Ég tel að stjórnvöld séu komin á mjög vafasama braut með því að lengja þann tíma sem nota má til að afskrifa töp. Ég tel reyndar að átta ár séu of langur tími. Mér hefði ekki fundist óeðlilegt að um væri að ræða fimm ár eða eitthvað slíkt. Það er mjög algengt að afskrifa hluti á fimm árum í fyrirtækjum, ýmsar fjárfestingar fyrirtækja.

Átta ár í sögu fyrirtækja er langur tími. Það að afskrifa töp er ekkert óeðlilegt fyrir þann rekstur sem hlut á að máli en það að geta verslað við önnur fyrirtæki með rekstrartöp, sameina fyrirtæki í þeim eina tilgangi að ná sér í tap til að sleppa við skatta, er bein leið í ríkiskassann. Ég sé ekki annað en menn séu að galopna ríkiskassann með þessum hætti. Ég tek undir það með hv. þm. að auðvitað er það meira en lítið vafasamt.

En ég ítreka spurningu mína: Er hv. þm. að tala fyrir persónulegri skoðun sinni eða er ágreiningur í ríkisstjórnarflokkunum um málið?