Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 17:39:00 (2393)

2002-12-10 17:39:00# 128. lþ. 50.6 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Ég vil aðeins koma inn í umræðuna og ræða almennt um skattstefnu ríkisstjórnarinnar og hvaða skilaboð núv. ríkisstjórn sendir frá sér með þeim breytingum sem staðið hefur verið fyrir, bæði í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna og svo núna þegar á að fara að afgreiða frv. um breytingar á tekju- og eignarskattslögum.

Það er alveg ljóst að verið er að lækka verulega tekjuskatta á fyrirtækjum og þó að ég sé almennt ekki andvígur því að fyrirtækjum í landinu sé búinn góður starfsgrundvöllur, þá tel ég að sú tekjuskattslækkun sem við stöndum fyrir, úr 30% í 18%, sé um of, það hafi ekki verið rétt af okkur að fara í þetta í svona stórum skrefum, ekki síst þegar við lítum til þess hvað við erum að gera að öðru leyti.

Það er auðvitað ekkert launungarmál og hefur margkomið fram í umræðum manna í dag að við höfum smátt og smátt verið hlutfallslega að auka skattbyrði á lágtekjufólki með því að láta persónuafsláttinn ekki halda sama vægi miðað við tekjur eins og æskilegt væri og ekki fylgja í raun og veru þeim loforðum sem sett voru upp þegar þetta staðgreiðslukerfi okkar um skatta var búið til.

Almennt vil ég bæta því við að ef við hins vegar veltum því fyrir okkur hvernig almenningur í landinu borgar skatta, a.m.k. hef ég ekki komist að annarri niðurstöðu í vangaveltum mínum en þeim að ef annars vegar er borið saman fólk sem hefur yfir 300 þús. kr. tekjur á mánuði og hins vegar fólk sem hefur um 100 þús. kr. í tekjur á mánuði, þegar upp er staðið og tekið tillit til þess hvernig virðisaukaskatturinn kemur inn í vöruverð og á ýmsar nauðsynjar sé það í raun og veru lágtekjufólkið sem borgar tiltölulega mun hærri skatta. Það liggur í því að lágtekjufólkið þarf að nota allar sínar tekjur í að komast af í eyðslu og þetta er í langflestum tilfellum, ég vil segja í öllum tilfellum, nauðsynleg eyðsla því tekjurnar eru ekki það háar og tekjurnar eru allar notaðar til þess að framfleyta sér og sínum.

Það liggur alveg í hlutarins eðli þegar við lítum til þess að virðisaukaskatturinn er á ýmsum vörum, að vísu mismunandi hár eftir því hvort við erum að tala um matvæli eða aðra vöru, þá er fólk auðvitað að eyða öllum sínum tekjum í það að framfleyta sér. Það borgar náttúrlega hlutfallslega mikið af tekjum sínum í virðisaukaskatt. Ef við gerum ráð fyrir að þeir sem hafa yfir 300 þús. kr. í tekjur geti á annað borð lagt eitthvað fyrir og eyði ekki öllum sínum tekjum og ef borið er saman hvernig eyðslan kemur út annars vegar hjá lágtekjufólkinu og hins vegar þeim sem hærri hafa tekjurnar hugsa ég að hægt sé að færa fyrir því rök þegar búið er að taka tillit til þess í hvað tekjunum var eytt, að í raun og veru sé sá sem lægri tekjurnar hafði að borga hlutfallslega mun hærri skatta. Hann eyðir öllum sínum tekjum í að halda sér og sínum á floti, hvort sem það telst eðlilegt framfæri eða ekki. Ég dreg mjög í efa að 100 þús. kr. nægi til þess að fólk geti haft hér eðlilegt framfæri.

Ég vil segja það t.d. varðandi þá tillögu sem hér er gerð, að lækka hátekjuskattinn úr 7% í 5% --- á sama tíma er reyndar verið að hækka þar tekjuviðmiðunina um 2,75% --- ég tel að þarna séum við að fara alranga leið og ekki sé verjandi að fara þá leið að lækka skatt á hátekjufólki á sama tíma og við erum að halda uppi mikilli skattheimtu á lágtekjufólki.

[17:45]

Eins og hér hefur komið fram í sambandi við fjárlagafrv. var hætt við að lækka stimpilgjaldið og þar teknar 900 millj. til viðbótar inn á tekjuhliðina. Og svo, eins og allir vita, voru samþykkt lög á hv. Alþingi um að hækka álögur á áfengi og tóbak. Þó að þar sé ekki um neinar sérstakar hollustuvörur að ræða er samt alveg ljóst, því miður, að margt fólk notar þessar vörur og þar af leiðandi má segja að það greiði stóran hluta af t.d. umsaminni lagfæringu ríkisstjórnarinnar til handa eldri borgurum. Við getum auðvitað spurt okkur hvort sú aðferð hafi verið skynsamleg. Ég ætla ekki að mæla því sérstaklega bót að við höfum hér lágt tóbaksverð en ég set ákveðið spurningarmerki við þá leið að láta einn hóp, sem að vísu notar heilsuspillandi vöru, borga ákveðnar aðgerðir.

Herra forseti. Við öll sem störfum á Alþingi höfum auðvitað velt því fyrir okkur fram og til baka hvaða áherslur menn ættu að setja í útfærslu á skattamálum. Ég hef t.d., og við í mínum flokki, horft á það hvernig laga mætti stöðu þeirra sem í raun og veru lifa á lágum bótum almannatrygginga, ellilífeyrisþega og öryrkja. Við höfum flutt um það tillögu að hægt væri að laga stöðu þessara hópa, m.a. með því að koma í veg fyrir það sem oft hefur verið kallað jaðarskattaáhrif, þ.e. að fái einstaklingur lágmarksgreiðslur úr lífeyrissjóði sínum, t.d. 10 þús. kr. svo dæmi sé tekið, tapist ekki strax á móti 6 eða 7 þús. kr. í jaðarskattaáhrifum. Það liggur í því að lífeyristekjurnar skerða strax þær bætur sem viðkomandi á rétt á, og í þessu tilfelli væri um sérstaka tekjutryggingu að ræða sem skertist fyrst. Síðan er þetta kerfi okkar allt þannig uppbyggt að eftir því sem menn eiga meiri rétt í lífeyrissjóði skerðast bæturnar meira.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur fundist allt of bratt farið í þetta í upphafi, þ.e. að tiltölulega lítill lífeyrisréttur fólks skerti bæturnar allt of skart. Þess vegna höfum við lagt fram hugmynd í þingsályktunarformi fyrir hv. Alþingi um að bætur undir 40 þús. kr. á mánuði skertu ekki sérstaka tekjutryggingu og tekjutryggingu þeirra hópa sem þyrftu á þeim bótum að halda eða nytu þeirra, ellilífeyrisþega annars vegar og örorkuþega hins vegar. Ég held að þetta sé mikið réttlætismál vegna þess að þó að gert hafi verið samkomulag um að lagfæra bæturnar aðeins er varla hægt að halda því fram að fólki takist að lifa af þeim einum saman. Þess vegna finnst manni það ákveðið réttlætismál að þegar fólk fær rétt úr lífeyrissjóði bitni það ekki beint með jaðarskattaáhrifum á bótum fólksins og síðan þegar búið er að skerða bótaréttinn komi tekjuskatturinn ofan á það sem eftir er þannig að af tiltölulega litlum lífeyrisréttindum verða fáar krónur eftir. Og því miður eiga allt of margir enn þá lítinn rétt í lífeyrissjóði þótt það fari vonandi batnandi á næstu 10, 15 eða 20 árum. Það er alveg hægt að sýna fram á það með tölum að einstaklingur sem á réttindi upp á 30 þús. kr. úr lífeyrissjóði tapar kannski helmingnum á móti vegna jarðarskattaáhrifa, þ.e. bæturnar lækka þá um 15 þús. kr. Þetta fer auðvitað stiglækkandi en er skarpast fyrst á hinni sérstöku tekjutryggingu.

Þetta er tillaga sem við höfum lagt fram hér í þinginu og reyndar tel ég að að hluta til hafi verið komið til móts við þetta sjónarmið í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og eldri borgara þar sem skerðingarviðmiðunum var aðeins breytt ellilífeyris- og örorkuþegum í hag, og er það auðvitað vel. Ég hefði samt talið að þarna hefðu menn átt að ganga alla leið og miða við einhvern lágmarkslífeyri sem ekki hefði áhrif á bótarétt fólks þannig að í raun og veru værum við með slíkum aðgerðum að tryggja rauntekjur fólks og hækka þær um 10--15 þús. kr. eftir því á hvaða skala menn væru að taka út lífeyri sinn eða hvaða rétt þeir ættu.

Herra forseti. Ég hefði talið að þetta væri mikið réttlætismál og vek athygli á því í þessari umræðu almennt um tekjuskatt og eignarskatt. Ég vil svo að lokum bara ítreka að ég tel að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur tekið í þessum málum, að lækka tekjuskatt fyrirtækja svona mikið eins og hér er gert ráð fyrir í stað þess að gera það í skrefum á nokkrum árum, sé röng og það sé of langt gengið í þeim efnum. Ég er líka andvígur því að 7% hátekjuskatturinn sé lækkaður í 5% eins og verið er að gera, sérstaklega með tilliti til þess að það er ekki verið að létta skattbyrði á tekjulægstu hópunum. Það hefði ég talið að væri nánast forgangsverkefni að takast á við, að létta þá skattbyrði og tryggja að lágtekjufólkið hefði úr meiri rauntekjum að spila.

Ég held að ég muni það rétt að ég hafi séð alveg nýverið ályktun í þessa veru frá samtökum launþega þar sem þeir lögðu það til að sett væri sérstakt tekjuskattsþrep á tekjur undir 120 þús. kr. á mánuði þannig að þar væri lægri prósenta en notuð er núna, hin almenna tekjuskattsprósenta og útvarsprósenta.

Þetta vildi ég sagt hafa almennt um þetta mál, herra forseti, og tel, eins og hér hefur komið fram í máli mínu, að við gætum farið betur í þetta mál fyrir fólk með lægri tekjur í þessu þjóðfélagi en hér er gert.