Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 18:16:17 (2395)

2002-12-10 18:16:17# 128. lþ. 50.7 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[18:16]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson út í örfá atriði. Virtur lögmaður hér í bæ var fenginn til að gefa álit á því hvort friðhelgi eignarréttarins væri rofin og bryti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar ef takmarkað væri með lögum framsal stofnfjárhluta á yfirverði samkvæmt þessum hugmyndum. Lögmaður þessi gaf álit á málinu sem fylgir einu nefndarálitinu. Hann kemst að því að það sé brot á stjórnarskránni að hefta framsal stofnfjárhluta á yfirverði samkvæmt því sem hér er verið að gera. Ég veit ekki hvort ég misskil þetta eða hvað. Ég trúi því varla að hv. nefnd sé að leggja til stjórnarskrárbrot. Þess vegna vil ég fá að heyra það frá formanni nefndarinnar hvort þetta sé misskilningur hjá mér eða hvort leitað hafi verið til annarra sérfræðinga til þess að hrekja álit Páls Hreinssonar í þessu máli hans.

Mig langar einnig til að heyra eitthvað um það frá formanni nefndarinnar hvað honum finnist um það að sjálfseignarstofnun geti verið með 90% hlut í einum sparisjóði meðan stofnfjáraðili getur aldrei átt meira en 5% til þess að fara með sinn hlut í.