Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 18:22:54 (2398)

2002-12-10 18:22:54# 128. lþ. 50.7 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[18:22]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var hópur af löglærðum mönnum sem aðstoðuðu nefndina með umsögnum sínum og viðtölum til að komast að þessari niðurstöðu. Hv. þm. ruglar saman þaki á atkvæðavægi í sparisjóði annars vegar og eignarhlut hins vegar. Í sparisjóði getur verið að einhver tiltekinn einstaklingur eigi stærri eignarhlut en 5%, þ.e. eignarhlutdeild af stofnfé, en það er hins vegar þannig að það má ekki fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni.

Þetta er vel þekkt í fyrirtækjalöggjöf að takmarkanir geta verið á atkvæðisrétti þó ekki séu takmarkanir á eignarhlutum. Í hlutafélagalöggjöf til að mynda er hægt að gefa út mismunandi flokka af hlutabréfum þar sem hverjum hlut fylgir mismunandi atkvæðisréttur eða þyngd í atkvæðisrétti þótt eignarhluturinn sem slíkur sé annar. Þetta er ekki mjög mikið notað hér á landi, að menn séu með mismunandi flokka af hlutabréfum hvað þetta snertir, en þetta er vel þekkt víða erlendis að menn eru með mismunandi vigtir af hlutabréfaflokkum hvað snertir atkvæðisrétt. Í sparisjóðnum er það svo. Þeir eru fyrirbæri sem byggja á dreifðri ábyrgð eða dreifðum atkvæðisrétti og þess vegna verður að haga löggjöfinni með hliðsjón af því hvers lags fyrirbæri sparisjóðirnir eru.