Breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:04:01 (2401)

2002-12-10 20:04:01# 128. lþ. 50.35 fundur 425. mál: #A breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn# (matsreglur um ársreikninga og samstæðureikninga) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands þá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er varðar breytingar á IX. viðauka sem fjallar um fjármálaþjónustu og XXII. viðauka sem fjallar um félagarétt við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65, um breytingu á eldri tilskipunum að því er varðar matsreglur um ársreikninga og samstæðureikninga fyrirtækja af tiltekinni gerð sem og banka og annarra fjármálastofnana.

Hvað varðar efnisatriði þessarar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni svo og gerðarinnar sjálfrar en þessari tilskipun er ætlað að samræma fjármálaupplýsingar innan bandalagsins og á innri markaðnum með því að tekin verði upp svokölluð gangverðsreikningsskil fyrir tiltekin fjármálaskjöl. Ríki geta þannig heimilað fyrirtækjum eða flokkum fyrirtækja að taka upp slík reikningsskil. Þetta er gert til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla og einnig til þess að auðvelda samanburð reikningsskila á alþjóðavettvangi en með mikilli alþjóðavæðingu atvinnurekstrar er mikilvægt að allar slíkar reglur séu samræmdar, ekki aðeins í Evrópu heldur um allan heim.

Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.