Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:10:32 (2404)

2002-12-10 20:10:32# 128. lþ. 50.36 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er afskaplega mikilvægt að farið sé yfir þessi mál og að Alþingi sé mjög vel ljóst hvað er að gerast, hvað verið er að samþykkja og í hverju verið er að vinna á vegum utanrrn. á vettvangi Evrópusambandsins. Ég held að það hafi verið til mikilla bóta á sínum tíma að kynna mál og leggja þau fyrir Alþingi í formi þáltill. til þess að betur sé haldið utan um málin og að Alþingi taki þau fyrr til meðferðar en áður var gert. Það er svo annað mál að það er jafnframt nauðsynlegt að Alþingi hafi sem bestar aðstæður til þess að fylgjast með málum á undirbúningsstigi, áður en þau eru flutt í formi þáltill. Það höfum við oft rætt hér og það er mjög mikilvægt að það sé gert. Utanrrn. hefur hvatt til þess því það er mikilvægt að þegar mál koma til endanlegs samþykkis komi þau mönnum ekki gjörsamlega í opna skjöldu þannig að menn standi nánast upp við vegg og hafi engin áhrif á það sem er að gerast.

Þetta er vissulega hætta sem við höfum svo sem oft upplifað og því er mikilvægt að þingið hafi tækifæri til að fylgjast sem best með málum. Ég tek því undir það með hv. þm.