Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 20:17:09 (2407)

2002-12-10 20:17:09# 128. lþ. 50.39 fundur 443. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn# (rekstrarfélög o.fl.) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[20:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002, um breytingu á IX. viðauka, sem fjallar um fjármálaþjónustu við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/107, um breytingu á eldri tilskipun um verðbréfasjóði, með áherslu á samræmingu reglna um rekstrarfélög og einfaldar útboðslýsingar og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108, um breytingu á eldri tilskipun um verðbréfasjóði, með áherslu á fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir.

Hvað varðar efnistatriði þessarar ákvörðunar vil ég eins og áður vísa til greinargerðarinnar og gerðarinnar sjálfrar. Tilskipuninni er annars ætlað að að bæta við heimild verðbréfasjóða til fjárfestinga í nokkrum öðrum eignum en framseljanlegum verðbréfum, t.d. hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða, bankainnstæðum o.fl.

Einnig er víkkað gildissvið eldri tilskipunar um verðbréfasjóði. Hins vegar eru gerðar nokkrar breytingar á skipulagi rekstrar verðbréfasjóða þannig að auknar heimildir eru til rekstrar annars konar sjóða og stoðþjónustu, auk þess sem heimild er gefin til starfrækslu og markaðssetningar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og útboðslýsingar sjóða einfaldaðar.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni umræðu verði tillöguni vísað til hv. utanrmn.