Tryggingagjald

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:02:37 (2414)

2002-12-10 21:02:37# 128. lþ. 50.8 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv. 134/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. sem felur í sér að lækka hámarksheimild á töku tryggingagjalds, sem var samþykkt á Alþingi í fyrra, er í sjálfu sér góðra gjalda vert hvað það varðar, að þessi heimild skuli lækkuð. En hitt er mikilvægt að missa ekki sjónar af því hver skattstefna ríkisstjórnarinnar er, sem einmitt kemur í ljós í sambandi við ákvörðun á tryggingagjaldinu en það hækkar um næstu áramót en ekki eins mikið og hámarksheimild var lögð til á síðasta ári. Það hækkar um 0,5% frá og með næstu áramótum og er liður í skattstefnu ríkisstjórnarinnar að færa skatta sem mest yfir á laun og launatengda þætti.

Vert er að leiða hugann að því í þessu sambandi að nú er talað um vaxandi óöryggi á atvinnumarkaðnum og ætti þá að vera hvatning af hálfu stjórnvalda að stuðla að aukinni atvinnu og að fyrirtæki mundu frekar hugsa um að halda uppi atvinnu, en að þeim væri ekki íþyngt með sköttum við það að vera með fólk í vinnu.

Verið er að gera þá breytingu núna að lækka tekjuskatt hjá fyrirtækjum, skatta á arð og fjármagnstekjur, verið er að lækka skattana á þessum þáttum en hækka á þeim sem tengjast launum. Ég tel þetta alranga skattstefnu. Þessi skattstefna bitnar á atvinnurekstri þar sem launahlutfall er hátt, hún bitnar á atvinnurekstri þar sem verið er að vinna frumkvöðlastarf og atvinnurekstri sem byggir á hugviti og vinnuafli.

Tryggingagjaldið hækkar um næstu áramót en aðeins minna en ráð var fyrir gert. Það skulu menn hafa í huga og ekki síst í ljósi þess atvinnuástands sem við kannski horfum fram á, eða nokkuð minnkandi atvinnu, þá ætti frekar að lækka tryggingagjaldið og hvetja til þess að stærri hluti af fjármagninu sem kemur úr atvinnurekstrinum renni til launa og launafólks, í stað þess að verðlauna þá sem hirða fjármagn út úr atvinnurekstrinum í formi aukinna arðgreiðslna.

Við vorum einmitt að ræða áðan um fjármálafyrirtæki og sparisjóðina þar sem í einni grein er verið að heimila þeim að hækka arðsemiskröfur sínar til þess fjármagns sem sparisjóðirnir hafa verið með til ráðstöfunar og ávaxtað. Þar er verið að færa áherslurnar frá starfseminni og yfir á arðsemiskröfurnar. Næsta skref er að skattleggja allt sem tengist vinnu, og hlutdeild launafólks í skattheimtu ríkisins vex sem er að mati Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs algjörlega röng skattstefna.

Virðulegi forseti. Ég vildi halda þessu til haga. Verið er að hækka tryggingagjaldið en þó ekki eins mikið og heimild var til, heimildin er lækkuð en tryggingagjaldið hækkar samt og munar nokkrum milljörðum kr. sem atvinnulífið í landinu verður að greiða í skatta til ríkisins og það eru fyrst og fremst laun og launatengd gjöld sem hækka, lendir harðast á fyrirtækjum í frumvinnslunni, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu og nýsköpunarstarfsemi. Þar að auki lendir þessi hækkun á tryggingagjaldi líka harðast á atvinnustarfsemi á landsbyggðinni þar sem fyrirtækin eru í þeirri stöðu að þau geta ekki notið skattfríðindanna sem tekjuskattslækkunin gefur, heldur verða þau fyrst og fremst að hugsa um að reka starfsemi sína og greiða laun.

Virðulegi forseti. Þó að þessi lækkun sé til bóta, þá er hún samt liður í þeirri röngu skattstefnu sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir.