Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:13:14 (2417)

2002-12-10 21:13:14# 128. lþ. 50.9 fundur 322. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (ýmsar gjaldtökuheimildir) frv. 145/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:13]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ekki eru hér á ferðinni miklar ákvarðanir. Verið er setja gjöld á fáeina liði og ekkert í sjálfu sér óeðlilegt við það. Þetta eru leyfisveitingar og annað slíkt. En ég vil í þessu sambandi minna á tillögu sem var samþykkt árið 1992, um endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Þó svo að ég viti að fjmrn. hafi unnið að einhverju leyti á þeim tíu árum að því að lagfæra þá gjaldheimtu sem liggur að baki þessum lögum, þá er ég viss um að menn hafa ekki enn þá náð því marki sem í raun og veru var stefnt að með samþykkt tillögunnar árið 1992. En þessi þál. um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana gekk út á það að ekki mætti setja nein gjöld á nema þau samrýmdust fullkomlega þeirri þjónustu sem ríkið væri að leggja til.

[21:15]

Ég held að tími sé kominn til að menn fari yfir þetta mál og skoði það nákvæmlega upp á nýtt. Mér finnst að hafa megi orð á mörgum atriðum sem voru í umræðunni þegar sú þál. var samþykkt sem ég var að minna á, atriðum sem eigi að ræða í þessu sambandi. Meðal annars var þá töluvert rætt um þau gjöld sem lögð eru á vegna lántöku, sem eru náttúrlega hróplegur skattur, þinglýsingargjöldin. Það er náttúrlega skattur á sérgreindan hóp.

Það er alveg furðulegt að sjá að þessir miklu afreksmenn sem hafa setið að völdum á undanförnum árum í skattamálum og hafa verið að hringla í skattakerfinu fram og til baka, skuli ekki enn búnir að átta sig á því og taka á því að verið er að mismuna fólki herfilega með því að nota það sem gjaldstofn ef það þarf á lántökum að halda. Þetta er fólkið sem er að byggja yfir sig hús, unga fólkið. Þetta eru skuldug fyrirtæki sem eru kannski að reyna að koma undir sig fótunum í rekstri.

Rökin fyrir slíkri skattheimtu frá hendi ríkisins hafa aldrei komið fram. Í umræðunni 1992, þegar sú þáltill. var samþykkt sem ég er að rifja upp, komu aldrei fram nein rök fyrir því hvers vegna menn ættu að borga skatt fremur en aðrir ef þeir skulduðu og þyrftu á lántökum að halda. Ég auglýsi eftir því hjá hv. þingmönnum hvaða rök séu á bak við það að ríkið noti þetta sem gjaldstofn á þegnana, fyrirtæki eða fólk.

Það er auðvitað gjörsamlega ófært að menn skuli halda þeirri skattheimtu áfram. Ég skora satt að segja á hv. þingmenn að taka á þessu máli og koma þessari skattheimtu sem hefur verið stunduð fram á þennan dag í eitthvert annað form.

Ég vildi nú minna á þetta í tengslum við umræðuna um aukatekjur ríkissjóðs vegna þeirrar þáltill. sem var samþykkt fyrir tíu árum.