Lífeyrissjóður sjómanna

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 21:18:04 (2418)

2002-12-10 21:18:04# 128. lþ. 50.10 fundur 355. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (elli- og makalífeyrir) frv. 151/2002, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[21:18]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, fyrir hönd meiri hluta efh.- og viðskn. Frumvarp þetta er flutt að ósk stjórnar lífeyrissjóðsins. Ástæðan er sú að sjóðurinn stendur ekki lengur undir skuldbindingunum og samkvæmt lögum um lífeyrissjóði þarf að taka á því máli.

Stjórn sjóðsins hefur fjallað um þetta mál allrækilega og ákveðið að bregðast við því með tilteknum hætti og óskar eftir því að Alþingi staðfesti þann vilja sem fram kemur í ákvörðun stjórnar sjóðsins. Ég hygg að þegar litið er á hvernig stjórn sjóðsins hyggst bregðast við séu þau viðbrögð í alla staði eðlileg.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt þótt vissulega sé það ekki með glöðu geði sem menn standa að slíkri samþykkt, þar sem réttindi fólks sem tekur greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skert. Það er þó engu að síður nauðsynlegt. Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. verði samþykkt óbreytt.