Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 22:17:22 (2423)

2002-12-10 22:17:22# 128. lþ. 50.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv. 157/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[22:17]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið sent til umsagnaraðila sem getið er um í nál. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa samráðsnefndar og fulltrúa Samtaka fjárfesta, auk fulltrúa Fjármálaeftirlitsins, viðskrn. og Seðlabanka Íslands.

Þetta mál er vel þekkt hér í þinginu og hefur komið fyrir árlega. Má segja að mörgu leyti að til fyrirmyndar sé hvernig staðið er að því að ákvarða þessi gjöld. Þeir aðilar sem þurfa við þau að búa eru hafðir með í ráðum um fjárhæð gjaldanna, samsetningu þeirra og eins um fjárhagsáætlanir Fjármálaeftirlitsins.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt lítt breytt. Nefndin vill beina því til viðskrn. að það fari yfir kostnað eftirlitsins vegna aukinna verkefna, vegna vinnu fyrir opinbera aðila og þátttöku í samstarfi í fjármálaeftirliti í Evrópu vegna undirbúnings að setningu nýrra reglna og laga á Evrópuvettvangi, enn fremur að það verði skoðað hvernig greitt er fyrir fjármálaeftirlit í nágrannalöndunum.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að ráðuneytið beiti sér fyrir þessu og vinni að þessu máli áður en næsta frv. af þessum toga verður undirbúið.