Póstþjónusta

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:05:06 (2440)

2002-12-10 23:05:06# 128. lþ. 50.21 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:05]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Hér er frv. til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu komið til 2. umr. Hv. formaður samgn. hefur mælt fyrir meirihlutaáliti um það en sá sem hér stendur skipar minni hluta í afgreiðslu nefndarinnar á frv.

Eins og kom fram í máli formanns samgn. er hér verið að skerða einkarétt á póstþjónustu og opna fyrir aukna einkavæðingu þannig að þyngdarmörk bréfa, sem áður voru bundin einkarétti og þar með á ábyrgð ríkisins og Íslandspósts að dreifa, eru lækkuð úr 250 g niður í 100 g. Þetta er eins og að láta einhverjum blæða út smátt og smátt, stinga smásár hér og þar og láta blæða til að lama starfsemina. Þannig gengur það gagnvart þessari samfélagsþjónustu sem póstþjónustan er.

Þótt það sé ekki sagt berum orðum í frv. er ljóst að markmiðið er að einkavæða og losa Íslandspóst, þ.e. hina opinberu póstþjónustu, við allar skyldur. Það er markmiðið. Um leið og póstþjónustan er brotin niður, kvarnað úr henni og teknir þeir bitar sem hægt er að bjóða út, þ.e. póstþjónusta hér á stórþéttbýlissvæðinu, verður náttúrlega örðugra að halda úti hinni almennu póstþjónustu fyrir allt landið. Ég hef því skilað minnihlutaáliti um þetta frv. sem ég ætla að leyfa mér að fara yfir, virðulegi forseti.

Eins og komið hefur fram fjallar þetta frv. um að takmarka og skerða einkarétt og samábyrgð í póstþjónustu og færa hana út þannig að bjóða megi hana út í pörtum.

Minni hlutinn gagnrýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í frumvarpinu, að fella niður í þrepum einkarétt og þar með ábyrgð ríkisins á póstþjónustu í landinu. Póstþjónusta er samfélagsþjónusta sem ríkinu ber að sjá um og tryggja. Ljóst er að gangi áætlanir ríkisstjórnarinnar um einka- og samkeppnisvæðingu póstþjónustunnar eftir mun þjónustan í dreifðum byggðum landsins dragast enn meira saman en orðið er.

Þótt frumvarpið láti lítið yfir sér er þar tekið enn eitt skref í einkavæðingu póstþjónustunnar og jafnframt dregið úr þeirri samábyrgð sem þjónustan grundvallast á.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir er verið að skerða og rýra ábyrgð hinnar opinberu póstþjónustu og bjóða upp á útboð. Útboð á póstþjónustunni mun alltaf leiða til þess að boðið verður í arðbærustu hlutana þannig að hin opinbera póstþjónusta stendur eftir með hina óhagkvæmari þætti. Með þessu er brotin niður sú hugsun, tilfinning og sýn að við séum ein þjóð í einu landi þar sem ákveðna þjónustu má veita um land allt og það sé ekki hagkvæmara á einum stað en öðrum. Þannig styður þjónustan á einum stað þjónustuna á öðrum stað. Þessa hugsun er kerfisbundið verið að brjóta niður, þ.e. að við eigum að bera sameiginlega ábyrgð á ákveðinni grunnþjónustu, m.a. póstinum.

Það hefði verið fróðlegt og nauðsynlegt að taka aftur opinbera umræðu um það hvernig póstþjónustu menn vilja. Núna á haustdögum er verið er að skera niður þjónustu, t.d. að fá að greiða gíróseðla á pósthúsum. Það er verið að loka pósthúsum, hverju á eftir öðru, enda er það eðlilegt þegar búið er að hagræða alla þjónustuna burt.

Þessi þjónusta snertir líka blaðasendingar. Það hefur verið upplýst á Alþingi og eins í hv. samgn. að nefnd sé að störfum við að finna út hvernig megi styrkja eða standa að því að blöð og tímarit sem hingað til hefur verið dreift í gegnum póstþjónustuna megi vera þar áfram. Ekki hafa enn komið neinar tillögur um hvernig gera eigi mögulegt að blaðadreifing gangi með eðlilegum hætti hér á landi þannig að sú starfsemi leggist ekki af.

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki ástæða til að hafa um þetta mjög langt mál. Stefna þessarar ríkisstjórnar birtist hér í hnotskurn í þessu eina skrefi sem tekið er í átt að því að einkavæða almannaþjónustu í landinu. Eins og í ýmsu öðru veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur í þessum efnum.

Ég tel þetta skref aftur á bak, einhverjar aldir aftur á bak, ef ekki árþúsund aftur á bak. Það var þó borinn út póstur hér fyrr á öldum. Menn lögðu á sig hættulegar ferðir. Það var talin sterk samfélagsskylda að bera út póst, koma pósti á leiðarenda. Það var gert af þar til bærum stjórnvöldum sem öxluðu þá ábyrgð. Þegar við komum á skipulagðri póstþjónustu seint á 18. öld þótti það mikið framfaraskref. Íslenska þjóðin hefur verið stolt af því hvernig hún tók á póstþjónustumálum sínum. En ríkisstjórnin sem við búum við skellir skollaeyrum við, lokar bæði eyrum og augum fyrir ábyrgð á þessari samfélagsþjónustu. Hún telur það sitt æðsta hlutverk að einkavæða þessa þjónustu burt, hún skuli bara í boði þar sem hún er hugsanlega arðbær en ekki annars staðar.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þetta fv. um að skerða ábyrgð ríkisins á póstþjónustu í landinu er spor langt aftur á bak og ætti að vera þessari þjóð gríðarlegt áhyggjuefni. Það er þessari ríkisstjórn til einskis sóma.