Póstþjónusta

Þriðjudaginn 10. desember 2002, kl. 23:38:37 (2444)

2002-12-10 23:38:37# 128. lþ. 50.21 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 128. lþ.

[23:38]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. kom inn á áðan, að Pósturinn naut sambýlisins við Símann. Þessi starfsemi var í einu lagi og þar af leiðandi tókst að halda uppi góðum rekstri þar sem póstburðargjöldin báru ekki allan kostnað póstsins.

En það er annað atriði sem ég vil víkja að varðandi samstarf Pósts og síma. Sum réttindi starfsfólksins hjá póstinum voru, þ.e. hluti af þeim, svokölluð starfstengd uppbót. Meðal annars fengu þeir sem lengi höfðu starfað hjá póstinum sérstakan afslátt á símagjöldum í formi afnotagjalda símans.

Ég sá alveg nýverið, bara fyrir tilviljun, að þegar verið var að tala um að hlutafélagavæða þetta var þáv. samgrh. Halldór Blöndal, núv. forseti þingsins, að svara fyrirspurnum, m.a. um þessi réttindi. Hann var spurður hvað yrði um þau réttindi fólksins sem það hefði áunnið sér á löngum starfsaldri, að fá að njóta frís afnotagjalds. Í þessu blaði var haft eftir honum að að sjálfsögðu yrði þess gætt að öll réttindi starfsfólksins héldu sér.

Ég hef upplýsingar um, herra forseti, að svo hafi ekki verið. Það hefur ekki að öllu leyti verið staðið við þetta, m.a. hafa þau starfstengdu réttindi sem menn fengu með fríum afnotagjöldum af síma eftir að hafa unnið hjá póstþjónustunni í fjölda ára hafa ekki haldið. Það væri fróðlegt að vita í hvaða réttarstöðu það fólk var.