Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:33:02 (2452)

2002-12-11 13:33:02# 128. lþ. 51.1 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv. 152/2002, JóhS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er framlenging og lækkun á hátekjuskatti og sérstakar viðbótarskattaívilnanir til fyrirtækja. Þingmenn Samfylkingarinnar leggjast gegn því að auka frekari heimildir til að nýta rekstrartöp í tíu ár í stað átta. Jafnframt munum við ekki styðja lækkun á hátekjuskattinum fyrst ríkisstjórnin telur sig ekki hafa svigrúm til að lækka skatta fólks með lágar og meðaltekjur en flytjum brtt. um að persónuafsláttur hækki í samræmi við launavísitölu á næsta ári.

Stjórnarflokkarnir sýna ljóslega með lækkun á hátekjuskattinum og frekari ívilnunum til fyrirtækja að þeir eru enn við sama heygarðshornið, að lækka fyrst og fremst skatta á þeim betur settu en láta þá sem minna hafa milli handanna bera byrðarnar. Því mótmælum við í Samfylkingunni. Við flytjum einnig brtt. í því skyni að styrkja skatteftirlit og auka skilvirkni í framkvæmd skattalaga. Þær brtt. munum við kalla flestar aftur til 3. umr. til að ráðrúm gefist til að ræða þær nánar áður en þær koma til atkvæðagreiðslu.