Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:48:44 (2460)

2002-12-11 13:48:44# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, JóhS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samfylkingin styður megininntak þessa frv. þar sem verið er að steypa mörgum lagabálkum um fjármálamarkaðinn í ein heildarlög um fjármálafyrirtæki. Við gerum þó ýmsar athugasemdir við einstök ákvæði frv. sem fram komu við 2. umr. málsins. Við hefðum m.a. viljað sjá meira aðhald og styrkari ákvæði í neytendavernd um ýmsa þætti í umgjörð fjármálalífsins og eftirliti með fjármálafyrirtækjum ásamt því að Fjármálaeftirlitið fengi víðtækari heimildir til að geta betur sinnt hlutverki sínu. Við flytjum brtt. m.a. um það efni og ákvæði er lúta að því að styrkja frekar starfsemi sparisjóðanna, m.a. með ákvæðum um dreifða eignaraðild. Sömuleiðis flytjum við brtt. sem fela í sér lýðræðislegra fyrirkomulag vegna fjölgunar stofnfjáreigenda hjá sparisjóðunum þannig að ekki séu óeðlilegar hindranir í vegi fyrir því að þeir sem svo kjósa geti orðið stofnfjáreigendur.

Loks vil ég nefna að við munum ekki styðja brtt. meiri hlutans við 74. gr. sem er nokkurs konar dúsa til stofnfjáreigenda þar sem sett eru fram matskennd ákvæði um að auka arðsvon stofnfjárhluta við breytingu á sparisjóði í hlutafélag sem ég tel að gangi gegn þeim grunngildum sem sparisjóðalöggjöfin hefur byggt á um verðgildi stofnfjárhluta og færi vel á því að þeir sem eiga stofnfé í sparisjóðum tækju ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu.