Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 13:50:22 (2461)

2002-12-11 13:50:22# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessu lagafrv. eru sameinaðir í eitt fjórir lagabálkar og byggir frv. á mikilli vinnu í langan tíma. Í frv. er margt sem horfir til hagræðingar og framfara og á það reyndar við um frv. að mestu leyti. Hins vegar eru þættir í því sem eru mjög ámælisverðir og bera vott um mjög afturhaldssama og ólýðræðislega hugsun. Þannig er núna ætlunin að festa í lög bann við því að reka ríkisbanka. Við vitum að verið er að gefa vildarvinum ríkisstjórnarinnar ríkisbankana á grundvelli helmingaskiptareglunnar sem allir þekkja, en hvers vegna þarf að binda í lög bann við því að þjóðin eigi og reki banka án þess að hann sé rekinn sem hlutafélag?

Annað er að með þessu lagafrv. höfðu margir vænst þess að hæstv. viðskrh. stæði við yfirlýsingar sínar frá í sumar um að svo yrði búið um hnúta að skýr lagaákvæði reistu skorður við braski með stofnfé á sparisjóðum. Ekki var staðið við þessi fyrirheit og skýlir ríkisstjórnin sér á bak við lagalega álitsgerð, eina álitsgerð sem að mínu mati er vafasöm og a.m.k. umdeilanleg. Brtt. sem fram kom eftir 1. umr. er beinlínis hugsuð sem hvati til þess að umbylta sparisjóðunum í hlutafélög og vísa ég þar til brtt. við 74. gr. frv. Þessu erum við andvíg. Við munum greiða atkvæði með því sem við teljum horfa til framfara en Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur einnig lagt fram brtt. til þess að styrkja sparisjóði landsins.