Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 14:12:09 (2464)

2002-12-11 14:12:09# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er verið að takmarka eignarrétt stofnfjáreigenda frá gildandi lögum og er það liður í svokölluðum yfirtökuvörnum sparisjóða. Stjórn sparisjóðs er bannað að samþykkja framsal virks eignarhluta nema, eins og segir orðrétt í frv., með leyfi herra forseta: ,,að um sé að ræða lið í nauðsynlegri fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs og ...``

Í greinargerð með frv. segir um 70. gr., með leyfi herra forseta:

,,Með ákvæðum 2. mgr. eru treystar varnir sparisjóðanna gegn slíkum yfirtökuboðum með því að skerpa á meginreglunni um dreifða eignaraðild.`` --- Átt er við yfirtökuboð í SPRON í sumar.

Þetta ákvæði minnir á tilskipanir einræðisherra fyrri tíma þegar honum líkaði ekki eða óttaðist niðurstöður dómstóla.

Herra forseti. Fyrir utan það að alltaf má telja að aðgerðir falli undir þetta ákvæði er samt um takmörkun á eignarrétti stofnfjáreiganda að ræða og með vísan til stjórnarskrárinnar segi ég nei.