Vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:04:34 (2472)

2002-12-11 15:04:34# 128. lþ. 52.1 fundur 147. mál: #A vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Til svars við þessari fyrirspurn er í fyrsta lagi mikilvægt að það sé áréttað strax í upphafi að meðferð þeirra réttinda sem hv. fyrirspyrjandi vísar til hefur frá stofnun Landsvirkjunar verið lögákveðin í þágu fyrirtækisins, fyrst samkvæmt lögum nr. 59/1965 og síðar samkvæmt lögum nr. 42/1983, og er ekkert í úrskurði óbyggðanefndar sem breytir neinu um það.

Í öðru lagi skal það tekið fram að ríkisstjórnin hefur engin áform um að beita sér fyrir breytingum á meðferð þessara réttinda í höndum fyrirtækisins. Á hinn bóginn er til þess að líta að eignarhald ríkisins í fyrirtækinu hefur ásamt öðru byggst á framsali þessara réttinda til fyrirtækisins samkvæmt sameignarsamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 1. júlí 1965. Þessi réttindi eru á svæði sem eftir gildistöku þjóðlendulaga og að úrskurði óbyggðanefndar gengnum telst þjóðlenda í eigu ríkisins og hefur samkvæmt því verið eigendalaust þegar samningurinn var gerður. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvort breytt réttarskipan á svæðinu raski á einhvern hátt réttarstöðu fyrirtækisins þar og þá þeim réttindum sem eigendaframlag ríkisins hefur með öðru miðast við.

Af hálfu ríkisins hafa verið færð fyrir því rök að svo þurfi ekki að vera ef litið er svo til að í samningnum hafi eingöngu falist framsal á hagnýtingar- og afnotarétti þeirra lands- og vatnsréttinda sem hér er um að ræða. Ríkinu hafi verið heimilt að framselja óbein eignarréttindi að þeim, á grundvelli allsherjarréttarlegra valdheimilda sinna á svæðum utan eignarlanda, og fyrir þau hafi að fullu verið greitt með eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Eftir setningu þjóðlendulaga býr forsrh. að sams konar valdheimildum að því er varðar ráðstöfun réttinda innan þjóðlendna og ákvörðun endurgjalds fyrir þau, og ég hef fyrir mitt leyti lýst mig reiðubúinn til að lýsa því yfir á grundvelli þeirra heimilda að réttindi Landsvirkjunar skuli standa óhögguð að þessu leyti.

Meðeigendur ríkisins að fyrirtækinu, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, hafa á hinn bóginn lagt á það áherslu að óbreytt réttarstaða fyrirtækisins verði að gengnum úrskurði óbyggðanefndar ekki að fullu tryggð nema ríkinu verði með lögum heimilað að framselja Landsvirkjun þau réttindi sem samningurinn frá 1965 tók til enda hafi framsal þeirra, í ljósi niðurstöðu óbyggðanefndar, byggst á vanheimild sem ekki verði bætt úr á annan hátt. Hafa bæði borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri staðfest þá afstöðu bréflega og beint því til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir lagasetningu í þessa veru.

Í ljósi þessarar afstöðu meðeigendanna hef ég látið hefja undirbúning að gerð frv. þar að lútandi enda get ég út af fyrir sig tekið undir að það sé nauðsynlegt ef lagt er til grundvallar að í samningnum frá 1965 hafi átt að felast bein eignayfirfærsla þessara réttinda í hefðbundnum einkaeignarréttarlegum skilningi.

Aðalatriði þessa máls --- og um það hygg ég að allir eigendur fyrirtækisins geti verið einhuga --- er vitaskuld það að fyrirtækið bíði ekki skaða af þeirri niðurstöðu sem fengin er með úrskurði óbyggðanefndar og verði í ljósi hennar gert eins sett og til var stofnað með umræddum sameignarsamningi frá 1965. Ég vonast því til að geta lagt frv. þess efnis fyrir þingið um leið og það kemur saman aftur að loknu jólahléi.