Skipan matvælaeftirlits

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:19:10 (2478)

2002-12-11 15:19:10# 128. lþ. 52.2 fundur 229. mál: #A skipan matvælaeftirlits# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Jú, það er rétt sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að sagt hefur verið hér áður að þetta sé allt á leiðinni en kannski er það þannig að góðir hlutir gerast hægt. Hins vegar verð ég að lýsa því, herra forseti, að ég hef nokkrar áhyggjur af athugasemdum eða því sem hæstv. forsrh. sagði um athugasemdir sveitarfélaganna, Sambands ísl. sveitarfélaga. Nú kemur í ljós að í þessu samráðsferli hafi verið skilað tveimur álitum, einu frá sveitarfélögum og öðru frá ríki, og það hafi síðan verið rætt í hæstv. ríkisstjórn. Ég mundi mjög gjarnan vilja inna hæstv. forsrh. eftir því hver sé í raun og veru lendingin í málinu. Ef sveitarfélögin eru að gera miklar athugasemdir við verklag, ekki við yfirstjórnina en við verklagið og við það að færa heilbrigðiseftirlitið frá sveitarfélögum sem eins og ég sagði er mjög mikilvægur hluti af þeirri þjónustu og því starfi sem þar fer fram, þá þætti mér gott að vita, herra forseti, hvernig eigi að leysa það mál þannig að allir vel við uni, bæði sveitarfélög og ríkisvald, því ljóst er að samræma þarf yfirstjórn með einhverjum hætti en það er hins vegar spurning hvernig hin nánari útfærsla og verklagið verður í framhaldinu.

Eitt að lokum. Ef hér á að setja á fót nýja matvælastofnun bráðlega þá kemur það auðvitað til kasta Umhverfisstofnunar, þ.e. matvælasviðs Hollustuverndar ríkisins núverandi að vera stærstur hluti hinnar nýju matvælastofnunar. Því langar mig að bæta einni spurningu við til hæstv. forsrh. og spyrja hann hvaða samráð hafi verið haft við starfsfólk þeirrar stofnunar, þ.e. Hollustuverndar ríkisins sem mun breytast í Umhverfisstofnun um áramót.