Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:33:40 (2484)

2002-12-11 15:33:40# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu og auðvitað ber að fagna því sem vel er gert. Hins vegar er alveg ljóst að réttarstöðu heyrnarlausra þarf að skerpa í samfélagi okkar. En þetta snýst ekki einungis um réttarstöðu heldur einnig um þjónustustig og þar hallar sannarlega á okkur í samanburði við nágrannalöndin. Um það ber líka vott stefnumörkun Alþingis sem hér hefur verið vitnað til.

Ég fagna sömuleiðis yfirlýsingu hæstv. ráðherra og treysti honum til þess að fylgja þessu máli eftir. Það er auðvitað orðið tímabært að heyrnarlausir í okkar landi njóti þeirrar þjónustu sem bætir stöðu þeirra og aðgengi í samfélaginu þannig að þeir fái notið sín sem þegnar og geti m.a. nýtt tungumál sitt til þess eins og aðrir í samfélagi okkar.