Íslenskt táknmál

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 15:34:37 (2485)

2002-12-11 15:34:37# 128. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A íslenskt táknmál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er nú hingað komið á Alþingi. Ég tel mjög tímabært að vekja athygli á þessu. Ég átti þess kost í fyrra að sækja fund hjá fólki sem á við þetta vandamál að stríða. Þar var m.a. til umræðu að bara það eitt að komast að stefnu stjórnmálaflokka væri örðugt og hversu erfitt væri að ná í efni sem lýtur að upplýsingum um störf stjórnmálaflokka. Einnig var rædd textun á stjórnmálaumræðu í sjónvarpi.

Ég spurði Ríkisútvarpið hvað ylli því að textun væri ekki meiri en raun ber vitni og þar var borið við fjármagnsskorti. Það er alls staðar sama sagan. Skortur á fjármagni kemur í veg fyrir að hægt sé að gera það sem allir eru sammála um að verði að gera.

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hann muni taka þetta mál til gagngerrar skoðunar.