Réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:04:31 (2497)

2002-12-11 16:04:31# 128. lþ. 52.4 fundur 340. mál: #A réttarstaða bifreiðastjóra sem aka eftir vegöxlum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég tek undir þakkir hv. þingmanna til hv. fyrirspyrjanda. Ég held að það hafi verið þarft að ræða þetta mál hér. Ég er hins vegar ekki sammála því að réttaróvissa sé á ferðinni. Það er ekki talin þörf á því að skilgreina með ítarlegri hætti hugtakið vegöxl né réttarstöðu þess sem þar ekur. Það eru gildandi ákvæði umferðarlaga og reglugerðar um umferðarmerki sem veita fullnægjandi svör við vangaveltum um réttarstöðu samkvæmt lögunum. Ekki má rugla saman annars vegar lagalegri réttarstöðu samkvæmt gildandi umferðarlöggjöf og svo hins vegar mati tryggingafélaga og túlkun þeirra á einstökum ákvæðum vegna tjónsuppgjörs.

Ég vil bara ítreka það hér út af þessari umræðu að aðalatriðið í þessu máli er að vegöxl getur einungis mögulega verið aksturssvæði í þeim tilfellum þegar ætlað er að hliðra til, greiða fyrir umferð og auðvelda framúrakstur. Vegöxl er ekki ætluð til aksturs langtímum saman líkt og er með akstur á akbraut. Ég hygg að hv. þm. séu mér alveg sammála um það. Það má hins vegar taka undir það og velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að kynna betur fyrir vegfarendum hvernig á að nýta þetta úrræði. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda hvað það varðar. Það er a.m.k. alveg ljóst að það er mjög mikilvægt að það sé engin óvissa á þessu sviði.

Ég hafði kannski ekki alveg lokið við að svara í minni fyrri ræðu þar sem ég ætlaði að bæta einu við varðandi þá varúðarskyldu sem ökumaðurinn ber gagnvart ökutæki sem hefur verið stöðvað á vegöxlinni. Ökumanni ber að sjálfsögðu að sýna ýtrustu varkárni er hann svo færir ökutæki sitt af vegöxlinni og aftur inn á akbraut vegna þess að umferð á akbraut nýtur að sjálfsögðu forgangs. Ég vona að þetta hafi eitthvað skýrt málið.