Meðferð opinberra mála

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:07:11 (2498)

2002-12-11 16:07:11# 128. lþ. 52.3 fundur 328. mál: #A meðferð opinberra mála# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég beini spurningu til hæstv. dómsmrh. Hún snýr að störfum nefndar sem endurskoðar lög um meðferð opinberra mála. Venjulega eru tvö dómstig í dómsmálum hér á landi, héraðsdómur og Hæstiréttur, en frá þessu eru þó undantekningar. Er þar um að ræða einkamál þar sem fjárhagslegir hagsmunir eru ekki mjög miklir og opinber mál þar sem refsingar eru ekki þungar. Í slíkum málum þarf leyfi Hæstaréttar til að unnt sé að áfrýja niðurstöðum héraðsdóms. En þótt refsingar séu ekki þungar borið saman við ýmis önnur mál er ekki þar með sagt að þær geti ekki verið þungbærar. Mér er kunnugt um mál þar sem dómur hefur fallið í héraðsdómi en hinum dæmda meinað að sækja mál sitt í Hæstarétti. Viðkomandi hafði verið dæmdur til þess að greiða sekt sem hljóp á tugum þúsunda, ella sæta fangelsisvist. Hann segir sig vera saklausan og í sínum huga vegi þyngra æran en samanlögð sektin og hugsanleg fangelsisvist.

Í þessu umrædda máli réðist niðurstaðan af framburði vitna og var að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir héraðsdóm að vega og meta ýmis álitaefni. Í héraðsdómi sat að þessu sinni aðeins einn dómari og ef að líkum lætur er dómsorð hans endanlegur úrskurður nema Hæstiréttur breyti fyrri ákvörðun sinni og heimili einstaklingnum að áfrýja máli sínu.

Þetta hlýtur að orka tvímælis. Að mínu mati er fráleitt annað en að unnt sé að vísa slíkum úrskurði til Hæstaréttar. Í frv. sem ég lagði fyrir 127. löggjafarsamkunduna er lagt til að þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna verði lögbundið að dómurinn sé fjölskipaður. Það gefur augaleið að með þeim hætti yrði stuðlað að traustara réttaröryggi en þar með er réttaröryggi þó ekki nægilega tryggt. Áfrýjunarrétturinn þarf að vera mun rýmri en hann er nú.

Í fyrrgreindu frv. er lagt til að felldar verði niður takmarkanir við því að maður sem hefur verið sakfelldur í opinberu máli geti áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar. Það mál fékk ágæta umfjöllun í allshn. þingsins og varð niðurstaðan sú að nefndin stóð einhuga að baki því að vísa málinu til dómsmrn. og vekja athygli á því að lög um meðferð opinberra mála sættu nú heildarendurskoðun af hálfu ráðuneytisins, og var fallist á það af minni hálfu. Nú hefur ekkert heyrst frá þessari nefnd, störfum hennar eða hvernig henni vegni og spurning mín til hæstv. dómsmrh. er þessi:

,,Hvernig miðar störfum réttarfarsnefndar við endurskoðun laga um meðferð opinberra mála og hvenær er að vænta tillagna frá nefndinni?``