Flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:25:29 (2503)

2002-12-11 16:25:29# 128. lþ. 52.6 fundur 275. mál: #A flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Það er alveg ljóst að það er dýrara að fljúga til Íslands frá meginlandi Evrópu en milli staða á meginlandnu. Bara af þeirri ástæðu, þessari landfræðilegu ástæðu, er það vitað að flugfélög hafa hætt við að fljúga hingað. Má þar nefna flugfélagið Go sem dæmi. Það hlýtur því að vera rökrétt að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að reyna að draga úr öllu sem heitir opinberar álögur ef við viljum auka flæði ferðamanna hingað til landsins.

Fyrir liggur að af opinberum álögum á venjulega flugvél sem lendir eru um 43% flugvallarskattur, en önnur afgreiðslugjöld eru samkeppnisfær eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Þess vegna er rökrétt að spyrja sig að því hvort ekki sé eðlilegt, a.m.k. yfir vetrartímann þegar við þurfum mest á ferðamönnum að halda, að hið opinbera felli niður þessa skatta í því skyni að gera Ísland fýsilegra fyrir erlenda ferðamenn og erlend flugfélög. Tekjutap ríkissjóðs er borgað upp strax á fyrsta sólarhring hvers nýs ferðamanns sem hingað kemur í formi neysluskatta.