Flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:26:49 (2504)

2002-12-11 16:26:49# 128. lþ. 52.6 fundur 275. mál: #A flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að okkur tókst mjög vel til eftir áfallið sem varð í ferðaþjónustunni á liðnu ári í þeirri markaðssókn sem fram fór á liðnum vetri og hefur verið að skila sér í því sem hæstv. samgrh. rakti í ræðu sinni. Engu að síður er ljóst að við þurfum að halda áfram á þeirri braut og þess vegna er mikið fagnaðarefni að ákveðið var við fjárlagaafgreiðslu af Alþingi að hækka mjög verulega fjármagn til markaðsstarfsemi í ferðaþjónustu. Það á örugglega eftir að skila sér.

Ég er þeirrar skoðunar að vel komi til greina að lækka skatt á flug utan háannatímans. Ég hreyfði þessu reyndar í Ferðamálaráði fyrr á þessu ári. Þar var samþykkt að leita eftir viðræðum við hlutaðeigandi aðila um það hvort þetta gæti komið til greina. Ég nefndi þetta líka á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs sem haldin var í Stykkishólmi 17. og 18. október sl. Þarna er hins vegar að mörgu að hyggja. Þessi gjöld standa undir tilteknum hlutum sem við þurfum auðvitað að standa skil á og þess vegna þarf að undirbúa þetta mál vel. En þetta sýnist manni hins vegar geta verið rökrétt framlag í þeim efnum að reyna að lengja ferðamannatímann sem að mínu mati er eitt stærsta viðfangsefnið sem við er að glíma í ferðaþjónustunni um þessar mundir.