Flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 16:28:06 (2505)

2002-12-11 16:28:06# 128. lþ. 52.6 fundur 275. mál: #A flugvallarskattar á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Mér finnst innlegg þeirra hafa verið mjög gott og er ég mjög ánægður með að heyra að formaður Ferðamálaráðs, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, skuli hafa tekið undir það að lækka skatta og eins hv. þm. Hjálmar Árnason sem viðraði þá hugmynd að það væri hægt að gera utan háannatímans.

Auðvitað eru það einmitt þessi mál sem við erum að ræða. Skattarnir, flugvallarskatturinn, er ekki lagður á á sumum flugvöllum. Við vitum náttúrlega til hvers flugvallarskatturinn er notaður hér eins og hér hefur komið fram. Hann er nýttur til þess að halda uppi öðrum flugvöllum á landinu. En samt gæti farið svo ef menn næðu að auka umferðina vegna lægri skattlagningar, að tekjurnar gætu samt sem áður orðið þær sömu og það er akkúrat það sem skiptir máli. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að skoða þetta mál mjög vandlega. Það er alveg augljóst að þær aðgerðir sem hæstv. ráðherra greip til til að reyna að örva ferðamannastrauminn náðu tilætluðum árangri. Út af fyrir sig var það góð aðgerð. En þarna er kjörið tækifæri. Þarna er gríðarlega stór og mikill vinnustaður. Það skiptir miklu máli fyrir Suðurnesin að þessi starfsemi haldist í þeim vexti sem hún hefur verið og fyrir ferðamennskuna í heild sinni er náttúrlega lífsspursmál að hægt sé að lengja ferðamannatímann og gera mönnum kleift að nýta þá dýru fjárfestingu út um allt land sem í dag er því miður vannýtt á flestum stöðum.